Það er ekki nýtt að vinstri menn tali fyrir hönd annarra enda er það stefna þeirra að stjórnmálamenn eigi að ráðstafa sjálfsaflafé fólks og ákveða hvernig það hagar lífi sínu. Jóhanna Sigurðardóttir talar alltaf um að fólkið vilji hitt og þetta og fólkið krefjist þess að eitt og annað sé gert sem hún sjálf hefur hug á. Eftirfarandi áskorun gæti verið frá Jóhönnu: Eins og nú er ástatt í ýmsum auðvaldsríkjum hefur verkalýðsstéttin með forustuliði sínu tækifæri til að sameina allan þorra almennings, leggja undir sig ríkisvaldið og afhenda almenningi helztu framleiðslutækin með því að koma á samfylkingu verkalýðs og allrar alþýðu, með ýmiskonar samningum og stjónmálasamvinnu mismunandi flokka og lýðræðissamtaka.
Þessi speki er þó ekki frá Jóhönnu heldur úr stefnuskrá Kommúnistaflokks Sovétríkjanna sem samþykkt var á 22. þingi þess flokks 31. október 1962.
Hið sérkennilegasta við allt tal Jóhönnu um vilja almenning er að hún er alltaf andvíg því að færa almenningi meiri völd með því að draga úr valdi pólítíkusa. Hún var andvíg því að selja 90 þúsund manns hlut í Búnaðarbankanum hf. rétt eins og hún hefur amast við allri annarri einkavæðingu. Hún ætti því ekki síður að geta verið ánægð með þessi orð úr stefnuskránni góðu: Sósíalisminn hefur endanlega afnumið einkaeignarrétt á framleiðslutækjunum. Sósíalistísk sameign á framleiðslutækjunum er orðin hinn trausti efnahagsgrundvöllur þjóðfélagsins.
Stöð 2 fjallaði í gærkvöldi linnulítið um þann stóra atburð að þingmenn krata greindu frá því að næstu þrjár vikurnar myndu þeir funda í sama herberginu. Og hvaða fréttamann ætli fréttastofan hafi nú valið til að sjá um alla þá umfjöllun? Auðvitað Róbert Marshall, fyrrverandi formann Verðandi, félags ungra Alþýðubandalagsmanna, en Róbert hefur um árabil barist fyrir þá pólitísku hugsjón að Alþýðubandalagið verði afhent Alþýðuflokksmönnum að gjöf.