Enn einu sinni er rætt um að leyfa hvalveiðar við þinglok. Erlendum umhverfisverndarsamtökum hefur um árabil tekist að hræða Alþingi frá því að leyfa hvalveiðar. Eins og flestir Íslendingar þekkja eru engar vísindalegar forsendur fyrir banni við hvalveiðum. Þær tegundir sem áhugi er fyrir að veiða eru fjarri því að vera í útrýmingarhættu. Þvert á móti væri æskilegt að nýta þessa auðlind sjávar í sama mæli og aðrar. Ella líður ekki á löngu þar til sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar vilja einnig banna hefðbundnar fiskveiðar þar sem með þeim sé æti tekið frá hvölunum. Sömu umhverfisverndarsinnar og eru andvígir því að hvalir og aðrar afurðir náttúrunnar séu nýttar eru einnig andvígir því að fólk borði kjöt af skepnum sem maðurinn fóðrar og ræktar á stórum búum. Það er vonlaust að reyna að gera þessu fólki til geðs og einungis tímaspursmál hvenær við hættum að hafa efni á því.
Þegar haft er í huga að umhverfisverndarsamtök nota vísvitandi blekkingar til að vinna fólk á sitt band í hvalamálum hljóta menn að spyrja um annan málflutning þeirra. Er hann trúverðugur? Umhverfisverndarsinnar hafa í áratugi spáð því að auðlindir Jarðar; jarðeldsneyti, málmar, fæða og vatn verði á þrotum innan tíðar. Í dag er verð á flestum náttúruafurðum í sögulegu lágmarki og hvergi hungur nema þar sem jafnaðarmennska (Norður-Kórea) eða stríð (Súdan) leggjast á fólk. Það er kaldhæðnislegt að mikið framboð af áli um þessar mundir seinkar að öllum líkindum byggingu nýrra álverksmiðja hér á landi en sjálfskipaðir íslenskir umhverfisverndarsinnar hafa verið þessum byggingum andvígir. Íslenskir umhverfisverndarsinnar geta því þakkað fyrir að spár skoðanabræðra þeirra um auðlindaþrot hafa ekki ræst! Þessir sjálfskipuðu umhverfisverndarsinnar hafa einnig eins og skoðanabræður þeirra í öfgasamtökum erlendis miklar áhyggjur af útblæstri gróðurhúsalofttegunda af manna völdum. Þó liggur það fyrir að álverksmiðja á Íslandi mun aðeins gefa frá sér brot af þeim gróðurhúsalofttegundum sem sambærilegar verksmiðjur gera löndum þar sem rafmagn til álframleiðslunnar er framleitt í kolakyntum orkuverum.
Eins og bent hefur verið á hér í Vef-Þjóðviljanum er ýmislegt við svonefndan skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa einstaklinga að athuga. Í fyrsta lagi er óeðlilegt að ríkið stýri fjárfestingum einstaklinga með þessum hætti. Nærtækara væri að lækka tekjuskattinn. Skattar eiga að vera almennir, án undantekninga og lágir. Í öðru lagi er óeðlilegt að aðeins sé veittur afsláttur fyrir fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum. Eftirlitsstofnun EFTA hefur nú sent íslenskum stjórnvöldum ábendingu þess efnis að skattaafslátturinn standist ekki EES samninginn þar sem kveðið er á um frjálsa fjármagnsflutninga svo vísað sé í málfar samningsins. Ekki sé hægt að skilyrða afsláttinn við fjárfestingar í íslenskum fyrirtækjum.