Í mínum huga er þetta skrumskæling af lýðræðinu, segir nýskipaður talsmaður bræðings vinstri manna, Margrét Frímannsdóttir, um prófkjör þau sem bræðingurinn hefur

haldið vítt og breitt um landið, þ.m.t. í Reykjavík. Þetta er óneitanlega með sérstæðustu yfirlýsingum sem stjórnmálamaður hefur gefið hér á landi í seinni tíð og það hlýtur að þurfa að ganga nokkuð á í framboðsmálum áður en talsmenn láta svona út úr sér. Og vissulega hefur töluvert gengið á. Í Reykjavík og á Reykjanesi gengu þær sögur fjöllum hærra að sæmilega þátttöku í prófkjörinu væri helst að þakka því að sjálfstæðis- og framsóknarmenn hefðu fjölmennt á kjörstað. Það má svo segja að þessar sögur hafi styrkst þegar í ljós kom að á Siglufirði kusu fleiri en mögulegt var að gætu stutt framboðið.
Við bætist að úrslit hafa engan veginn orðið eins og eigendur hinna deyjandi dvergflokka Alþýðuflokks og Alþýðubandalags hefðu kosið. Fyrsta áfallið var niðurstaðan í Reykjavík, en þar fékk Jóhanna Sigurðardóttir mun meiri stuðning en þessir tveir flokkar höfðu óskað sér. Svo varð vandræðagangurinn í kringum Guðnýju Guðbjörnsdóttur afar óþægilegur fyrir framboðið, ekki síst sú staðreynd að hún skyldi enda með að taka 8. sætið eftir að hafa áður hafnað því. Þessu næst voru úrslitin á Norðurlandi eystra mikið áfall fyrir flokkana tvo og sigurvegarinn, Sigbjörn Gunnarsson, maður sem hvorugur flokkurinn getur sætt sig við þótt þeir sitji nú uppi með hann. Andstaðan við Sigbjörn er svo mikil innan þessara flokka að þeir fóru fram á endurtalningu í örvæntingarfullri tilraun til að losna við hann úr fyrsta sætinu. Loks hefur svo komið í ljós að Gísli S. Einarsson er afar ósáttur við framboðsreglurnar á Vesturlandi, en eins og fram kom hér í blaðinu í gær er verið að semja prófkjörsreglur í því kjördæmi sem eiga að koma í veg fyrir áframhaldandi þingsetu Gísla.
Til að missa ekki öll völd í þessum bræðingi hafa Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson nú stigið ofan á Jóhönnu Sigurðardóttur og ákveðið að hunsa vilja kjósenda í stærsta kjördæminu með því að skipa Margréti talsmann framboðsins. Það er ef til vill meðal annars til að auðvelda þetta sem Margrét kýs að kalla öll prófkjör bræðingsins skrumskælingu lýðræðisins, því þar með er staða Jóhönnu allt önnur en ef þessi prófkjör hefðu verið eðlilegar lýðræðislegar kosningar.
Reykjavík virðist ekki skorta fé og þarf það svo sem ekki að koma á óvart eftir linnulausar skattahækkanir R-lista. Nú hefur borgin ákveðið að fleygja hálfri milljón króna í kynningu á vínveitingahúsum í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá því bjór var lögleyfður hér á landi á ný. Afskipti borgarinnar af vínveitingamálum eru með þessu orðin hin undarlegustu, því hún reynir bæði að koma í veg fyrir að fólk geti sótt þessa staði að vild og ýtir undir aukna aðsókn með styrkjum. Hvar endar þetta? Verður útsvarið hækkað um þau prómill sem eftir eru upp að hámarki og borgarbúum í staðinn sendur bjór í pósti? Eða skyldi borgin fara að átta sig á að kominn er tími til að draga úr þessum endalausu afskiptum?