Laugardagur 20. febrúar 1999

51. tbl. 3. árg.

Hálf-fimm fréttir Búnaðarbankans vöruðu í fyrradag (undir rós auðvitað) við afleiðingum þess að hér kæmust til valda stjórnlyndir vinstri menn eftir kosningar. Fjallað var um fund Seðlabanka Evrópu sama dag, en vangaveltur voru uppi um hvort hann mundi láta undan pólitískum þrýstingi og lækka vexti. Oskar Lafontaine fjármálaráðherra Þýskalands og félagar hans í nýrri stjórn félagshyggjumanna þar í landi hafa verið áhugasamir um að breyta stefnu seðlabankans og fá hann til að lækka vexti, en hagfræðingar hafa bent á að það mundi ýta undir verðbólgu. Fyrri stjórnvöld í Þýskalandi lögðu mikla áherslu á að viðhalda sjálfstæðum seðlabanka en vinstri menn eins og Lafontaine og Gerhard Schröder eru eins og fyrri daginn áhugasamir um að grípa inn í gang efnahagslífsins.

Full ástæða er til að óttast að hið sama verði uppi á teningnum hér á landi komist vinstri menn á borð við þá sem skipa bræðinginn til valda. Þá verður efnahagssérfræðingurinn Jóhanna Sigurðardóttir líklega fjármálaráðherra og mun væntanlega ekki hika við að þrýsta á Seðlabanka Íslands um það sem henni þykir henta. Og ólíkt evrópska seðlabankanum er sá íslenski ekki mjög sjálfstæður, þannig að ólíklegt er að hann stæðist atlögu óforsjálla stjórnmálamanna. Það er til dæmis allt eins víst að sá ósiður sem lagður var af í tíð síðasta fjármálaráðherra, að ríkið yfirdragi reikning sinn í Seðlabankanum í stað þess að taka lán á markaði, verði tekinn upp að nýju þegar Jóhanna þarf aukið fjármagn til að standa undir öllum útgjaldahugmyndunum.