Miðvikudagur 3. febrúar 1999

34. tbl. 3. árg.

Áhugamenn um rekstur ríkissjóðs gátu loks sofið örlítið rólegar fyrir tveimur árum þegar ljóst var að hallarekstri sjóðsins yrði hætt, í bili að minnsta kosti. Ríkissjóður mun raunar greiða skuldir sínar niður um 20 milljarða á næstu tveimur árum. Við þessa greiðslu sparast árleg útgjöld vegna vaxta um 1 milljarð króna. En þegar þessi áralanga martröð skattgreiðenda vegna hallareksturs á ríkissjóði virðist loks á enda tekur ný við. Sveitarfélögin hafa á undanförnum árum steypt sér í gríðarlegar skuldir og eru flest rekin með stórum mínus. Umræðan um nauðsyn þess að halda útgjöldum í skefjum og forðast hallarekstur, skattahækkanir og lántökur virðist ekki hafa náð til sveitarstjórnarmanna. Sveitarstjórnarmenn virðast almennt nota þá reglu að ákveða útgjöldin fyrst og reyna svo að finna tekjur til að mæta þeim.

Í nýjasta tölublaði Af vettvangi sem VSÍ gefur út er spurt í fyrirsögn hvort sveitarfélögin stefni í þrot. Í greininni kemur fram að halli hefur verið á rekstri sveitarfélaganna óslitið frá 1990. Hefur hallinn náð allt að 21% af heildartekjum þeirra á einu ári! Það kemur svo sem ekki á óvart að það var árið 1994 en þá voru kosningar til sveitarstjórna og atkvæðakaup í algleymingi. Sveitarfélögin hafa eins og aðrir notið góðs af auknum umsvifum í þjóðfélaginu undanfarin ár. Tekjur þeirra hafi vaxið verulega eins og tekjur ríkissjóðs. Engu að síður tekst sveitarstjórnarmönnum ekki að ná endum saman. Sem dæmi nefnir hagfræðingur VSÍ Hafnarfjarðarbæ en þar er gert ráð fyrir 900 milljónum króna í gjöld umfram tekjur sem er halli upp á 28%.

Enn skirrist meirihluti R-listans í borgarstjórn við að hlíta úrskurði félagsmálaráðherra um að borgarstjóri skuli ekki stjórna fundum borgarráðs. Sumum kann að finnast þetta algert smáatriði og að óþarfi sé að vera með sparðatíning þegar lög eru annars vegar. Þó verður að telja að yfirvöld, sem sjálf setja borgurunum hinar og þessar reglur og ætlast til að þeir fari eftir þeim, verði að sýna lögum nokkra virðingu.

Getur verið að þetta sé afleiðing þess hvernig valdist á R-listann í prófkjörsígildi hans? Skyldi það vera að sumir sem þá völdust til forystu og höfðu ekki alltaf staðið réttu megin laganna telji bara að lögin séu rétt til viðmiðunar og þeir þurfi ekki að fara eftir þeim frekar en þeim sjálfum hentar? Borgarbúar ættu líklega bara að láta á það reyna hvort borgaryfirvöld sýna því skilning ef borgarbúar velja úr þær reglur sem þeim hentar að fara eftir. Hvernig væri t.d. að neita að borga útsvarshækkunina sem R-listinn hafði lofað að ekki yrði?