Ýmsir, ekki síst svonefndir umhverfisverndarsinnar, hafa lengi spáð því að helstu hráefni heims gangi til þurrðar vegna fólksfjölgunar. Engu að síður hefur verð á helstu hráefnum fallið mjög á undaförnum áratugum. Að mati Alþjóðabankans mun verðfall á hráefnum undanfarna 18 mánuði seint verða unnið upp. Ástæðuna segir bankinn ekki síst vera aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum og tækniframfarir. Aukið frelsi í milliríkjaviðskiptum hefur aukið verkaskiptingu og hagkvæmni við vinnslu hráefna. Tækniframfarir hafa einnig aukið hagkvæmnina og gert mönnum kleift að nýta nýjar auðlindir. Nýjar vörutegundir hafa leyst eldri af hólmi og við það hefur verð þeirra fallið. Matvælaframleiðsla á hvern jarðarbúa hefur einnig vaxið jafnt og þétt undanfarna áratugi. Spár umhverfisverndarsinna um auðlindaþurrð hafa eins og svo margt annað í málflutningi þeirra reynst illa ígrundaður hræðsluáróður.
Í fyrradag var Jóhanna Sigurðardóttir, drottning klofningsframboðanna, í viðtali í DV. Þar fer mikil prentsverta í ekki neitt, en þó komast tvenn skilaboð vel áleiðis. Hin fyrri eru þau að Jóhönnu langi mikið til að verða leiðtogi bræðingsins á landsvísu en þori ekki að segja það af ótta við að upp úr sjóði og klofningurinn verði enn sýnilegri.
Síðari skilaboðin eru öllu alvarlegri og skipta kjósendur miklu, en þau snúast um viðhorf bræðingsins til skattamála og opinberra útgjalda. Þegar hismið hefur verið skilið frá kjarnanum í málflutningi hins nýja (eða öllu heldur gamla) leiðtoga og reynt að greina til hvaða aðgerða yrði gripið næðu klofnir vinstrimenn stjórnartaumunum kemur í ljós að aðgerðirnar eru hærri skattar með sérstakri áherslu á að auka jaðaráhrif skatta- og bótakerfisins.
Þetta er það sem hið nýja afl hefur fram að færa til þjóðmálaumræðunnar og hljóta menn þá að spyrja sig til hvers var barist og hvers vegna var verið að drepa Alþýðuflokk og Alþýðubandalag og búa til tvo eða fleiri nýja flokka í staðinn. Við þessu er ekki til neitt skynsamlegt svar en líklegast er þó að þetta hafi verið eina ráð flokkaflakkaranna illræmdu til að ná yfirráðum á vinstri vængnum.