Formaður kjaradóms og forseti Alþingis hafa að undanförnu haldið því fram að laun þingmanna séu of lág. Formaður kjaradómsins hefur jafnvel fullyrt að fólki finnist almennt að þingmenn eigi að hafa hærri laun. Lítið hefur þó farið fyrir kvörtunum frá almenningi vegna þess skorts sem þingforsetinn og formaður kjaradómsins telja að þingmenn búi við. Eins og Vef-Þjóðviljinn hefur áður bent á má bæta kjör þingmanna umtalsvert – án þess að hækka við þá kaupið. Einfaldlega með því að fækka þeim verkefnum sem heyra undir þingheim þ.e. draga úr umsvifum ríkisins og fækka lögum og reglugerðum. Ekki er ólíklegt að kjör almenning myndu einnig batna við slíkar aðgerðir. Sjálfsagt þarf þó bæði að koma til viðhorfsbreyting hjá mörgum þingmönnum og almenningi til að kjör þingmanna verði bætt með þessum hætti. Menn verða að hætta að setja jafnaðarmerki á milli duglegra þingmanna og góðra þingmanna. Þeir þingmenn sem flytja flest mál og þeir ráðherrar sem stofna flestar nefndir og standa fyrir flestum átaksverkefnunum eru ekki endilega til fyrirmyndar.
Í fréttum af launum embættismanna hefur forseti Íslands jafnan verið borinn saman við aðra embættismenn og af þeim samanburði að dæma mætti ætla að kjör hans væru síst betri en til dæmis ráðherra. Það gleymist því miður að forsetinn þarf ekki að greiða tekjuskatt af tekjum sínum. Mánaðarlaun forsetans eru því nær því að vera 800 þúsund krónur en 460 þúsund. Þetta minnir aftur á að Ólafur Ragnar Grímsson taldi það sjálfsagt þegar hann bauð sig fram til forseta að forsetinn greiddi sömu skatta og aðrir. Lítið hefur heyrst um þessa skoðun Ólafs Ragnars frá því hann náði kjöri.
Ágúst Bjarnason verkfræðingur hefur um nokkurt skeið safnað gagnlegum upplýsingum um svonefnd gróðurhúsaáhrif á heimasíðu sína. Nýlega breytti hann síðunni talsvert og bætti við nýju efni. Er síðan líklega fróðlegasta lesningin um þessi mál á íslensku en þar eru einnig vísanir í ýmsar aðrar heimildir. Meðal þess sem finna má á síðunni er graf sem sýnir þróunina í spádómum IPCC um hlýnun vegna aukinna gróðruhúsaáhrifa til ársins 2100. En IPCC er nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um þessi mál. Spádómar IPCC um hækkun hitastigs vegna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum til ársins 2100 hafa breyst undanfarin ár eins og grafið sýnir. Spádómarnir hafa farið lækkandi, en skyldi vera von á meiri lækkun eftir því sem þekking manna eykst? Menn bíða spenntir eftir næstu skýrslu frá IPCC, sem kemur væntanlega út árið 2000 eða 2001, segir Ágúst á síðunni.