Mánudagur 18. janúar 1999

18. tbl. 3. árg.

Það hafa oft verið stofnuð samtök að litlu tilefni hér á landi. Nú virðist hins vegar full ástæða til að stofna samtök sem berjast gegn því að utanríkisráðherra frétti af húsnæði til leigu eða sölu í öðrum löndum. Enda mega Íslendingar ekki lengur setjast að í nokkru landi án þess að utanríkisráðuneytið sé komið á hælana á þeim með sendifulltrúa sína. Utanríkisráðherrann birtist t.d. í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi og tilkynnti alþjóð um einstakt tækifæri Íslendinga „til að komast inn í Afríku“. Þannig er að í dönsk-sænsku sendiráði í Mosambique eru laus „eitt eða tvö herbergi“ að sögn ráðherrans. Ef við tökum þessi herbergi á leigu eigum við í fyrsta sinn tækifæri á að „komast inn í Afríku með diplómat“, sagði ráðherrann hróðugur.

Rökstuðningur ráðherrans fyrir því að íslenskir skattgreiðendur greiði leigu fyrir „eitt eða tvö herbergi“ í Mosambique og laun fyrir diplómat var að þar væru fyrir allnokkrir starfsmenn á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. En Þróunarsamvinnustofnun heyrir einmitt undir utanríkisráðuneytið!
Það er alltaf hægt að réttlæta ein geggjuð ríkisútgjöld með öðrum.

Um þessar mundir eru sýndar á sjónvarpsstöðvunum auglýsingar frá ráðherraskipaðri nefnd um bætta stöðu kvenna í stjórnmálum. Í auglýsingunni kemur fram ung kona, sem vekur athygli á því að konur séu mun færri en karlar á Alþingi, en þar sem hún heldur áfram máli sínu taka að heyrast karlmannsraddir, sem fljótlega yfirgnæfa konuna. Í lokin heyrist svo önnur kvenrödd, sem segir eitthvað á þessa leið: „Taktu þátt í velja fulltrúa þinn, því annars munu aðrir velja fulltrúa sinn sem fulltrúa þinn.!“
    
Þessi auglýsing verður ekki skilin öðru vísi en svo, að verið sé að hvetja konur til að kjósa konur á Alþingi, því ella muni karlar velja karla til setu þar. Þetta er að vísu ekki sagt berum orðum í auglýsingunni, en verður ekki skilið á annan hátt, enda væri auglýsingin þá merkingarlaus. Hér er um afskaplega gamaldags dólgafemínisma að ræða, enda er langt síðan allflestir talsmenn jafnréttisbaráttu lögðu svona málflutning á hilluna. Í dag eru það fyrst og fremst leifarnar af Kvennalistanum sem notast við áróður af þessu tagi, en ekki þarf að fjölyrða um stuðninginn, sem það flokksbrot nýtur um þessar mundir. Áhugamenn um jafnréttismál hafa fyrir löngu áttað sig á því að það er mun vænlegra til árangurs að hvetja konur til að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa á jafnréttisgrundvelli og hvetja svo kjósendur til að velja hæfasta einstaklinginn, óháð kynferði. Það er óneitanlega sérkennilegt að ráðherraskipuð nefnd skuli árið 1999 velja svona áherslur í auglýsingum sínum, sem kostaðar eru af almannafé.

Málflutningur af þessu tagi hefur áður verið reyndur og hefur ekki skilað árangri. Auk þess er hér á ferðinni lítilsvirðing við þá karla, sem gefa kost á sér til trúnaðarstarfa til að vinna að hagsmunamálum bæði karla og kvenna og um leið móðgun við þær konur, sem í framboði eru, því með málflutningi af þessu tagi er verið að gefa í skyn að þær geti ekki náð árangri á eigin forsendum.