Í gær héldu Hollvinasamtök Háskóla Íslands fund undir yfirskriftinni Fiskur, eignir og réttlæti. Frummælandi var Hannes Hólmsteinn Gissurarson og andmælandi Þorsteinn Vilhjálmsson. Tilefni fundarins var nýleg bók Þorsteins Gylfasonar Réttlæti og ranglæti en í bókinni heldur Þorsteinn því fram að upphafleg úthlutun á aflaheimildum á miðunum við Ísland hafi verið ranglát. Í framsögu sinni andmælti Hannes þessari skoðun Þorsteins og benti á að fyrir daga kvótakerfisins þ.e. fyrir 1983 hafi menn haft rétt til að stunda útgerð og deila tapinu með öðrum útgerðum þar sem of mikil sókn var í fiskistofnana. Þegar um takmarkaða auðlind er að ræða og aðgangur að henni er ótakmarkaður hverfur hagnaðurinn vegna ofnýtingar.Upprennandi útgerðarmenn hafi því þurft að taka þetta tap á sig eins og aðrir. Í dag þurfa menn hisn vegar að kaupa kvóta til að komast að. Það hafi því í raun ekki verið tekinn neinn réttur af þeim sem höfðu hug á að stunda útgerð. Þeir sem höfðu hins vegar aflað sér þessara atvinnuréttinda með því að stunda útgerð fengu að hafa þau áfram. Annað hefði verið óeðlilegt. Það var því ekki verið að taka frá einum og færa til annars og allt tal um gjafakvóta og mestu eignatilfærslu Íslandssögunnar eigi sér því litla stoð. Með kvótakerfinu var í raun hvatt til þess að best reknu útgerðirnar keyptu þær verst reknu út svo snúa mætti tapi í hagnað.
Þetta hreinsunarstarf eða hagræðing hefur auðvitað haft það í för með sér að þeir sem hafa selt aflaheimildir sínar hafa farið út úr greininni með umtalsvert fé. Það skiptir auðvitað nokkru máli að þeir sem hætt hafa útgerð hafa gert það með frjálsum samningum (sem venjulega er nefnt frjálst framsal). Menn hafa svo sem ekki bent á aðra jafn friðsama leið. Sá ófriður sem hefur verið um þessa leið er kominn frá nokkrum stjórnmálamönnum sem telja það til vinsælda fallið að ala á öfund yfir því að slökustu útgerðarmennirnir hafa verið keyptir út. Það hefur þó ekki skilað þeim miklum árangri í kosningum enda vantar alltaf hvað á að koma í staðinn og málflutningurinn því ekki trúverðugur.
Á fundinum benti sjómaður til 35 ára á þá staðreynd að kvótakerfið dregur úr brottkasti fisks. Fyrir daga þess var umframafla sem fékkst kastað fyrir borð enda voru menn í kapphlaupi um aflann við önnur skip. Í dag vita menn hvað þeir mega veiða mikið og þegar umframafli kemur í veiðarfærin geta menn gert sér mat úr honum með því að flytja fiskinn milli skipa. Kvótakerfið býður einnig upp á að útgerðir geta keypt sér kvóta í þeim tegundum sem slægjast með um borð og þurfa því ekki varpa þeim fyrir borð. Útgerðarmaður sem tók til máls andmælti því sem víða heyrist í umræðu um útgerð að útgerðarmenn séu hættir að vinna og hirði bara gróðann. Það sé hins vegar staðreynd að starf þeirra hafi breyst mjög mikið. Fyrir daga kvótakerfisins hafi starf þeirra að mestu leyti snúist um að ná sem mestum afla að landi á sem skemmstum tíma. Í dag viti menn hver aflinn verður og starfið felist í því að ná aflanum með sem hagkvæmustum hætti og gera sem mest úr honum með réttum vinnsluaðferðum og markaðssetningu.