Laugardagur 16. janúar 1999

16. tbl. 3. árg.

Landbúnaðarráðherra gaf út reglugerð 12. janúar sl. sem felur í sér að fram til 15. mars nk. munu landsmenn eiga þess kost að kaupa kínakál á margfalt lægra verði en á öðrum tímum ársins. Í reglugerðinni felst, að á umræddu tímabili verður „aðeins“ lagður 30% tollur á innflutt kínakál, en að jafnaði er til viðbótar lagður á sérstakur magntollur, sem nemur 206 kr/kg.

Ástæða þess að magntollurinn er ekki látinn gilda nú fram í miðjan mars er sú, að á þessu tímabili verður ekki um að ræða neina innlenda framleiðslu á kínakáli. Þar sem landbúnaðarráðuneytið telur sig ekki þurfa að vernda innlenda garðyrkjubændur fyrir samkeppni þessa tvo mánuði geta neytendur því keypt kálið á skaplegra verði en endranær. Um leið og innlenda framleiðslan kemur á markað verður innflutta varan að sjálfsögðu verðlögð aftur út af markaðnum með álagningu áðurnefnds magntolls.

Hér er á ferðinni lítið dæmi um það ástand, sem enn er við lýði varðandi innflutning landbúnaðarafurða. Þrátt fyrir að frelsi hafi aukist á ýmsum sviðum þjóðlífsins er verslun með þessar afurðir enn í fjötrum fortíðar.