Föstudagur 15. janúar 1999

15. tbl. 3. árg.

Ævintýramaðurinn Jim Rogers ritar grein í Worth Online um Ísland. Þar leggur hann m.a til að Íslendingar aflétti hömlum á fjárfestingum útlendinga. „Rétt eins og Bandaríkin urðu rík á miklum fjárfestingum útlendinga á 19. öld (án þess að við yrðum „vinnudýr“ útlendinga) gætu Íslendingar bætt hag sinn verulega með því að opna frekar fyrir slíkt“, segir Rogers. „Efnahagskerfi Íslands er eitt það undarlegasta í heimi. Engu að síður væri frábært að fjárfesta þar – þ.e.a.s. ef Íslendingar vildu taka við peningunum okkar“.

Í leiðara DV í gær er bent á þá staðreynd að þrátt fyrir glundroðann á vinstri vængnum sé hin hefðbundna íslenska flokkaskipan ekki að riðlast. Líklega muni fjórir flokkar ná fylgi til þings í kosningunum í vor: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur með nokkra allaballa innanbúðar og nýtt Alþýðubandalag með nokkrar Kvennalistakonur um borð. Ef að þetta verður raunin sem alls ekki er fráleitt samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum hljóta menn að spyrja til hvers öll lætin voru. Hvers vegna fóru Jón Baldvin og Ólafur Ragnar saman á rauðu ljósi? Til hvers klauf Jóhanna Alþýðuflokkinn og stofnaði Þjóðvaka? Til hvers gekk Ágúst Einarsson oftar úr Alþýðuflokknum en glöggir menn hafa tölu á? Til hvers gengu Steingrímur, Ögmundur og Hjörleifur úr Alþýðubandalaginu? Til hvers voru allar þessar þreifingar, samningaviðræður og samfylkingarumræður? Af hverju gengu Margrét Frímannsdóttir og samverkamenn ekki bara í Alþýðuflokkinn og létu Steingrími og félögum Alþýðubandalagið eftir?  Er þetta áralanga fréttamál þá þegar upp er staðið eingöngu farsi um nokkra einstaklinga sem voru í Alþýðubandalaginu og langaði að ganga í Alþýðuflokkinn?

Áður hefur verið bent á það hér að eitt og annað í nýrri skýrslu um byggingu tónlistarhúss standist ekki og þá sérstaklega ríflegt mat á áætluðum fjölda tónleikagesta. En fleira er spaugilegt í skýrslunni.Þar má nefna að erlendir ráðgjafar þessa dýra verkefnis leggja til ákveðinn fjölda salerna og handlauga fyrir konur og karla. Kvenþjóðinni eru ætluð til notkunar 52 salerni og handlaugar, en óþrifalegum karlpeningnum á að mati hinna erlendu sérfræðinga að duga 28 stykki af hvoru. Ekki skal skorið úr um það hér hvort þetta er vegna þess að tónelskir karlar eru svo miklir jaxlar að þeir halda bara í sér eða hvort ástæðan er sú að þeim er ætlað að fara undir húsvegg. Hitt er víst að eyðsluklærnar sem ábyrgð munu bera á húsbyggingu þessari munu án efa finna út að fjölga eigi salernum karla en ekki fækka salernum kvenna. Og þetta er bara eitt af mörgu sem eyðsluseggir almannafjár munu nota til að ná verði hússins upp eftir því sem framkvæmdin nálgast.