ÁRAMÓTAÚTGÁFA
Hér að neðan hefur Vefþjóðviljinn tekið saman nokkur helstu afrek ársins og sumt annað sem ómissandi er í lok árs:
Sjálfsgagnrýni ársins: Sverrir Hermannsson iðrast jafnan allra sinna gjörða.
Mesti aðdáandi Bjargar Sivjar Juhlinar Friðleifsdóttur á árinu: Björg Siv Juhlin Friðleifsdóttir.
Raunsæi ársins: Monica Lewinsky gerði ráð fyrir að Clinton myndi skilja við Hillary og giftast sér.
Sigurvegari ársins: Sighvatur Björgvinsson sigraði glæsilega í þýsku þingkosningunum og leiðir einnig ríkisstjórn í Frakklandi og á Bretlandi.
Hvarf ársins: Borgarstjórnarflokkur Alþýðuflokksins.
Skattgreiðendur ársins: Arnarsson og Hjörvar eignuðust fé og greiddu skattaskuldir sínar hálfum mánuði fyrir kosningar.
Læknir ársins: Þorsteinn Pálsson sá með sex mánaða fyrirvara að Böðvar Bragason myndi ná sér af veikindum fimmtánda nóvember.
Varamaður ársins: Anna Geirsdóttir, 9. maður á R-listanum, settist ekki í borgarstjórn þegar Hrannar fór í frí.
Aðalmaður ársins: Pétur Jónsson, 13. maður á R-listanum, settist í borgarstjórn þegar Hrannar fór í frí.
Loforð ársins: Fyrir kosningar lofaði Helgi Hjörvar að lækka gjöld á borgarbúa.
Efndir ársins: Eftir kosningar hækkaði Helgi Hjörvar útsvör borgarbúa.
10 efnisminnstu bæklingar sem því miður
komu ekki út á árinu:1) Skattar og skilvísi, eftir Arnarsson og Hjörvar.
2) Sundruð sameinumst vér, eftir Sighvat Björgvinsson, Margréti Frímannsdóttur, Steingrím Sigfússon og þessa hámenntuðu í Kvennalistanum – ATH: A.m.k. fimm mismunandi bæklingar.
3) Aula hvað?, eftir Bárð Kvótason.
4) Nokkur grundvallaratriði í hlutlausri fréttamennsku (eða vikurnar á hanabjálkanum), eftir Össur Skarphéðinsson.
5) Kynvillt kvæði, eftir Árna Johnsen.
6) Vatnshöfðasvítan, eftir Pál Óskar Hjálmtýsson.
7) Um merkingarfræðilega afstæðni (lof)orða, eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
8) Hvernig skurðaðgerðir geta aukið vinnuafköst; nokkur atriði sem huga skal að þegar þindin er fjarlægð, eftir Hjörleif Guttormsson.
9) Grundvallaratriði í rekstri geymsla, eftir lögreglustjóra og samtökin Ísland fíkniefnalaust árið 2002.
10) Villtu árin, eftir Halldór Ásgrímson.
Samstarf ársins: Sverrir Hermannsson og Bárður Halldórsson sneru bökum saman á árinu.
Orðvarastur á árinu: Bárður Halldórsson greindi frá því að Sverrir Hermannsson væri bara orðstór fasisti og hann myndi ekki svara slíkum mönnum.
Vinnufélagar ársins: Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra og Sigurður Gizurarson sýslumaður áttu farsælt samstarf á árinu.
Flokkseigandi ársins: Sverrir Hermannsson þaut upp á Hagstofu, skráði þar flokk, sagðist eiga hann sjálfur og Bárður mætti ekki vera með.
Laumuspil ársins: Bandaríkjamaður á sextugsaldri, William J. Clinton, 1600 Pennsylvania Avenue, Washington D.C., hélt fram hjá konu sinni með tvítugri stelpu. Öll heimsbyggðin frétti af því. Hann baðst afsökunar.
Nafnbreyting ársins: Húsfélagið Einimel 9 breytti um nafn á árinu og nefnist nú Frjálslyndi flokkurinn.
Talsmaður ársins: Hallur Hallsson fréttamaður var ráðinn blaðafulltrúi háhyrnings.
Tónleikar ársins: The rolling stones voru auglýstir hér í lok ágúst. Vefþjóðviljinn komst því miður ekki en þetta hafa vafalaust verið hörkutónleikar. Tónleikarnir voru í boði Félags eldri borgara.
Vinflestur á árinu: Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti alþjóð að Finnur Ingólfsson myndi eingöngu að selja einkavinum sínum hluti í Búnaðarbankanum. Kaupendur urðu 60 þúsund.
Samningamaður ársins: Eftir harðvítugar viðræður náði Björn Bjarnason fram því baráttumáli skattgreiðenda að tvöfalda framlög þeirra til kvikmyndagerðarmanna.
Slagorð ársins: Öll mál eru fjölskyldumál! – Segir allt sem segja þarf: ekki nokkurn skapaðan hlut.
Nýtni ársins: Íslenska fótboltalandsliðið lék við Frakka og Rússa, fékk samtals hálfa sókn – og tvö mörk.
Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.
Gabb ársins: Ófriður 2000 Magnússon sagðist ætla í Framsóknarflokkinn.
Ginningarfífl ársins: Þeir sem trúðu að Ófriður væri orðinn framsóknarmaður.
Fjölmiðill ársins, Vefþjóðviljinn, friðsæll en ekki ginnkeyptur,
þakkar lesendum sínum
samfylgdina á árinu.