Föstudagur 1. janúar 1999

1. tbl. 3. árg.

Morgunblaðið lagði í gær nokkrar spurningar fyrir leiðtoga stjórnmálaflokkanna eða þingflokkanna. Eftir allar sameiningaræfingarnar á vinstri vængnum að undanförnu eru það alls fimm leiðtogar vinstri flokka sem svara spurningunum auk Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins. Ef fram heldur sem horfir verða vinstri menn væntanlega með hátt í tíu fulltrúa um næstu áramót. Davíð Oddsson forsætisráðherra er svo einnig með ávarp í blaðinu. Spurningarnar eru því miður um mál sem þessir stjórnmálaforingjar hafa allir oft, jafnvel of oft, tjáð skoðanir sínar á, svo fátt markvert eða nýstárlegt er að finna í svörum þeirra. Það kemur auðvitað á óvart út af fyrir sig að fimm leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi ekkert markvert nýtt fram að færa nú nokkrum mánuðum fyrir kosningar. En þó voru nýstárlegar kenningar inn á milli.

Jóhanna Sigurðardóttir setur fram athygliverða kenningu þegar hún segir: „Allir sem aðhyllast jafnrétti og réttlæti í þjóðfélaginu, sem ég fullyrði að er mikill meirihluti þjóðarinnar, gera kröfu til þess að samfylkingin komi sterk út úr næstu kosningum.“ Jóhanna hefur sjaldan hikað við að tala í nafni þjóðarinnar þótt þeir flokkar sem hún hefur tilheyrt hafi ekki náð mikilli hylli meðal almennings. Hér fullyrðir hún að meirihluti þjóðarinnar geri kröfu um að samfylkingin komi sterk út úr næstu kosningum. Það sé aðeins lítill minnihluti sem sé andvígur jafnrétti og réttlæti og muni ekki styðja samfylkinguna. Það sér þó hver sem vill að margt þarf að breytast til að Jóhanna og félagar nái almennri hylli meðal þjóðarinnar. Ekki síst það hvernig Jóhanna talar fyrir hönd þjóðarinnar og þeirra einstaklinga sem hana mynda án þess að hún hafi minnsta tilefni til að ætla að henni hafi verið falið slíkt umboð. Og það eru undarleg ummæli um þá sem ekki hyggjast kjósa samfylkinguna hennar Jóhönnu að þeir séu á móti jafnrétti og réttlæti!

Margrét Frímannsdóttir veifar reiknistokknum gamla framan í lesendur og heldur því fram að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að verja opinberu fé til að jafna aðstöðumun á milli byggða og draga með því úr fólksflóttanum af landsbyggðinni. Þessu fylgir vitaskuld ekki nothæfur rökstuðningur og ekki við því að búast, en þó er helst á henni að skilja að hagkvæmninni eigi að ná með því að leggja enn meira fé en nú er gert í byggðamál. Þó virkjanir geti verið til hagsbóta fyrir hinar dreifðu byggðir verður að hennar mati að fara afar varlega í þær. Þessi afstaða hefur hingað til þýtt að Alþýðubandalagsmenn eru á móti öllum virkjunum. Í lokin á Margrét svo undarlegustu athugasemd síðasta árs, en hún segir: „Að lokum ein jákvæð frétt: Mikið held ég að það hafi glatt hann Davíð að Kastró hélt sín jól.“ Margrét hefur vonandi hlegið dátt þegar hún skrifaði þetta, en öðrum er þessi athugasemd víst ráðgáta.

Kristín Halldórsdóttir, fulltrúi Kvennalistans, er sömu skoðunar og fulltrúar þess lista hafa alltaf verið. Hún vill að öllum ráðum verði beitt til að hér geti enginn atvinnuvegur þrifist, t.d. með því að eyðileggja kvótakerfið, hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfi sem völ er á, með því að hætta við frekari nýtingu á hagkvæmustu orkulindum landsins og með því að skrifa undir Kyoto samninginn. Það er erfitt að hugsa sér ógæfulegri framtíðarsýn, en óþarfi er að óttast, þar sem Kvennalistakonur eru á förum úr íslenskri pólitík.

Ögmundur Jónasson, talsmaður vinstrimanna, er svipaðrar skoðunar og Kristín Halldórsdóttir og má heita furðulegt að Kvennalistinn sé að reyna að troða sér í bælið hjá Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi þegar hann á svo augljósa samleið með Ögmundi og félögum hans. En það er svo sem eins og annað í þessari sameiningu allri. Hún sundrar hugsanlegum samherjum frekar en að sameina þá. Ögmundi til hróss má þó segja að ólíkt ýmsum vinstri mönnum kemur hann auga á að kvótadómur hæstaréttar er „langt frá því að vera skýr“. Þetta stafar ef til vill af því að Ögmundur er minna fyrir að fela skoðanir sínar en gengur og gerist meðal stjórnmálamanna á vinstri vængnum.

Nú, Halldór Ásgrímsson fer í löngu máli (eins og hinir, því miður) yfir það sem um er spurt. Þar er svo sem ekkert sem kemur á óvart, en þó má skemmta sér við eina setninguna. Hún er lýsandi fyrir margt af því sem stjórnmálaforingjar skrifa um áramót, því mest er þetta býsna almennt tal og bitlítið. Halldór segir: „Afstaða Framsóknarflokksins til byggðarmála er skýr: Við teljum búsetu í öllum byggðum landsins vera einn af hornsteinum íslensks samfélags.“ Ekki er gott að átta sig á því hvað formaður Framsóknarflokksins er að fara með þessu, því það er nú líklega svo með byggðir þar er búseta. Sennilega þýðir þetta að Framsóknarflokkurinn vill að fólk sé í byggðum en ekki óbyggðum!

Í ávarpi Davíðs Oddssonar er farið yfir jákvæða stöðu efnahagsmála, en jafnframt varað við því að auðvelt sé að eyðileggja efnahaginn ef menn gæti sín ekki. Davíð bendir á að hér sé lítill launamunur miðað við aðrar þjóðir og að langflestir hafi notið góðs af góðærinu. Hann segir þó að það hafi ekki komið jafnt til allra, en spyr þá hvort hægt væri að stýra batanum þannig að allir fengju jafnan hlut af ávinningnum. Þessu svarar hann sjálfur svo: „slíkt hefur verið reynt við ýmsar aðstæður, bæði hérlendis og erlendis. Afleiðingin hefur jafnan orðið sú að batinn, sem átti að koma, hefur enginn orðið. Verr hefur verið af stað farið en heima setið.“
Davíð minnir einnig á að í dag, þegar tekjuskattur lækkar þriðja árið í röð, þá njóti landsmenn þess ekki allir, þar sem Reykjavík hafi ákveðið að leysa til sín stóran hluta þessarar lækkunar.

Þegar kosningaár fer í hönd er þessi skattahækkun sameinaðra vinstri manna í Reykjavík ef til vill það sem landsmenn ættu helst að hafa í huga. Fyrir kosningar gáfu vinstri menn loforð um að álögur yrðu ekki hækkaðar á borgarbúa, en fáum mánuðum síðar hefur þetta verið svikið. Þetta er sama sagan og áður; vinstri menn hækka skatta og auka umsvif hins opinbera hvenær sem þeir koma því við.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum gleðilegs og gæfuríks árs.