Miðvikudagur 30. desember 1998

364. tbl. 2. árg.

Að sögn Wei Jingsheng, baráttumanns fyrir lýðræði á meginlandi Kína, hafa yfirvöld aukið hörkuna í baráttunni gegn lýðræðisöflum þar í landi á síðustu tveimur til þremur mánuðum. Sem dæmi má nefna að þessi stjórn jafnaðarmanna í Beijing lét í gær setja tvo andófsmenn í þriggja ára langa nauðungarvinnu án dóms og laga. Að undanförnu hafa átján aðrir verið settir á bak við lás og slá, í allt að þrettán ár, fyrir að dreifa lesefni sem yfirvöldum líkar ekki.

Wei heldur því fram að ástæðuna fyrir þessari auknu hörku yfirvalda sé að finna í máttleysi Vesturlanda í samskiptum við alræðisstjórnina í Kína. Nú er reyndar ekki gott að segja hvaða stefna skilar mestum árangri í samskiptum við ógnarstjórnir eins og þá sem ræður nú ríkjum á meginlandi Kína. Þó má færa að því rök að það kunni að vera heppilegast að halda áfram viðskiptum við ríkið til að almenningur standi sterkar að vígi gegn harðstjórunum og geti á endanum brotist undan okinu, en að pólitískum samskiptum og kurteisisheimsóknum eigi að halda í lágmarki. Það er fullkomlega óþarft að umgangast ríki sem ítrekað brjóta gróflega rétt á borgurum sínum með sama hætti og hin sem virða leikreglur réttarríkisins og lýðræðisins.

Gerð og stofnun borgríkisins New Utopia, sem verið er að reisa úr sæ í Karabíska hafinu, er líkari söguþræði vísindaskáldsögu en raunveruleikanum, en engu að síður virðist ríkið geta orðið að veruleika. Stofnendur þess höfðu lengi leitað að eyju til að stofna sjálfstætt ríki, en allar eyjar voru í eigu einhverra landa, þannig að þeir gripu til þess bragðs að byggja nýja eyju á rifum sem liggja fjóra metra undir yfirborði sjávar. Honduras, sem er næsta ríki, hyggst undirrita samning við stofnendur New Utopia um að virða ríkið, en New Utopia er innan efnahagslögsögu Honduras.

Til stendur að stofna hið nýja ríki fyrsta desember á næsta ári, en ástæður stofnunarinnar eru að sögn aðstandenda borgríkisins óhófleg og vaxandi ríkisafskipti víðast annars staðar í heiminum. Hugmyndir stofnendanna um hlutverk ríkisvaldsins eru að það skuli einskorðast við að gæta að öryggi borgaranna. Borgríkið hefur vitaskuld opnað heimasíðu og þar geta forvitnir kíkt á það sem í boði verður.