Í vikunni greindu ríkisfjölmiðlarnir frá því að ný áströlsk rannsókn sýndi að allt að 45 % astmaveikra barna [séu] frá heimilum þar sem annað eða bæði foreldranna reykja. Þetta þýðir að 55 % astmaveikra barna eru frá heimilum þar sem ekki er reykt. Þó Vefþjóðviljanum sé annt um velferð barna er það skýlaus krafa hans að þrátt fyrir þessar niðurstöður verði foreldrum ekki gert skylt að reykja yfir börnum sínum…
Frá árinu 1994 hefur ársverkum á almennum markaði fjölgað úr 90.826 í 97.025 eða um 6,8%. Á sama tíma hefur ársverkum hjá hinu opinbera (ríki og sveitarfélögum) hins vegar fjölgað úr 24.351 í 26.861 eða um 10,3%. Þetta hlýtur að koma félagshyggjuliðinu á Alþingi á óvart þar sem flestar þingræður þess virðast gera ráð fyrir að mikill niðurskurður hafi átt sé stað hjá hinu opinbera. Útgjöld hins opinbera hafa einnig vaxið um 10,3% á þessu tímabili. Það er því ekki að undra að þessi málflutingur falli í grýttan jarðveg og vinstri menn séu rúnir trausti um þessar mundir. Óska vinstri menn virkilega að útgjöld hins opinbera hefðu aukist meira en um 10% á þessu tímabili?
Í umræðum á Alþingi í gær gagnrýndu Guðný hámenntuð Guðbjörnsdóttir og Svanfríður Jónasdóttir frumvarp ríkisstjórnarinnar til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða harðalega. Sjávarútvegsráðherra bað þær vinsamlegast að benda á aðrar betri leiðir en frumvarpið gerir ráð fyrir. Varð fátt um svör en Guðný benti hins vegar á að ríkisstjórnin væri ófær um að koma sér saman um nauðsynlegar breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum. Enda liggur frumvarp um slíkar breytingar frá ríkisstjórninni fyrir á þingi!