Helgarsprokið 20. desember 1998

354. tbl. 2. árg.

Yfir ein milljón fíla þrammar um í Afríku. Engu að síður tókst umhverfisverndarsamtökum eins og World Wildlife Fund að safna gríðarlegum fjármunum til að þrýsta á að fíllinn yrði settur á lista yfir dýr í útrýmingarhættu.  Það tókst og umhverfisverndarsinnar fengu því einnig framgengt að verslun með fílabein var bönnuð. Enda sýndu þeir áróðursmyndir af því í fjölmiðlum hvernig fílum var slátrað á villimannlegan hátt og tennurnar sagaðar af með vélsögum. Þetta er aðeins eitt dæmið af mörgum þar sem umhverfisverndarsinnar nota kvalir og ógeðfellda meðferð á dýrum sér til tekjuöflunar. En látum það vera að þessu sinni og skoðum frekar hvaða áhrif barátta umhverfisverndarsinna hefur á fílinn sem þeir þykjast berjast fyrir.

eleph.jpg (50156 bytes)
eleph.jpg (50156 bytes)

Þegar fílinn var settur á lista yfir dýr í útrýmingarhættu hjá CITES (Convention on International Trade in Endangered Species) og verslun með fílabein bönnuð hækkaði verð á fílabeinum enda jókst áhætta við að veiða fílinn og versla með beinin. Meiri gróðavon varð því í veiðiþjófnaði. Meirihluti þeirra ríkja sem fíllinn lifir í greiddi atkvæði gegn þessu banni. Ástæðan var m.a. sú að með því að setja fílinn á listann hjá CITES og banna verslun með beinin var grundvelli kippt undan því að hægt væri að gera fílinn að arðbærri (sjálfbærri) auðlind. Fyrir bannið voru merkilegar tilraunir í gangi í Botswana, Suður-Afríku og Zimbabwe þar sem innfæddir seldu veiðileyfi á fíla en gættu þess á sama tíma að fílarnir hefðu nægt land og frið til að fjölga sér enda væri með því móti hægt að selja veiðileyfi áfram. Afurðir af veiddum dýrum voru einnig seldar og ferðamönnum seldar skoðunarferðir að svæðunum þar sem fílarnir halda sig. Með þessu móti voru það hagsmunir innfæddra að vernda fílastofninn og sjá til þess að honum hnignaði ekki. Ef bannað er að veiða fílinn og versla með afurðir er fílinn aðeins lífshættulegt dýr sem traðkar niður akra og enginn hefur hagsmuni af því að gæta hans fyrir veiðiþjófum. Barátta umhverfisverndarsinna er því vart til þess fallin að viðhalda fílnum.

Umhverfisverndarsinnar hafa einnig barist mjög fyrir endurvinnslu á pappír þrátt fyrir að það sé mjög umdeilt hvort endurvinnslan (endurvinnsla kallar á söfnun, flokkun, flutninga, efnameðferð og orkunotkun og iðulega talsvert af skattfé) hefur minni mengun í för með sér en framleiðsla á nýjum pappír. International Paper (IP) er eitt stærsta pappírsframleiðslufyrirtæki Bandaríkjanna. Fyrirtækið á m.a. 1,2 milljónir ekra lands í Texas, Louisiana og Arkansas sem er hráefnabúr fyrirtækisins. Skógarnir þar eru nýttir til pappírsframleiðslu. En fyrirtækið hefur einnig önnur not fyrir landið. Frá 1982 hefur IP selt útivistarfólki aðgang að landinu til skotveiða, fiskveiða og annarrar útiveru. IP leigir m.a. veiðifélögum ákveðin svæði til langs tíma og er það þá skylda félaganna að gæta þess að landinu og gæðum þess sé ekki spillt með ógætilegri umferð, rusli, íkveikjum eða veiðiþjófnaði. Í staðinn geta félögin selt veiðimönnum leyfi til að veiða fisk, dádýr, kanínur o.s.frv. Veiðifélögin sjá einnig um að skrá veiðina og fylgjast með að ekki sé gengið nærri veiðistofnum. Reynsla IP af þessu samstarfi í miðsuðurríkjunum leiddi til þess að fleiri svæði sem fyrirtækið á voru einnig leigð útivistarfélögum. Nú skapa tveir þriðju af 6 milljónum ekra fyrirtækisins um öll Bandaríkin því tekjur af útivistarfólki.

Það er vaxandi áhugi á útivist og tómstundum í óspilltri náttúru. Það er engin hætta á öðru en framtaksamir einstaklingar og fyrirtæki eins og IP grípi tækifærið og reyni að anna þessari eftirspurn. Svo framarlega sem þeim verður ekki bannað að gera það eins og afrískum landeigendum og fílahirðum. Forsendan fyrir verndun umhverfisins er skynsamleg nýting þess.