Föstudagur 18. desember 1998

352. tbl. 2. árg.

Fjölmiðlar hafa mikil áhrif í þjóðfélaginu og geta notað þau til góðs eða ills. En líkast til hafa þeir aldrei orðið berir að jafn furðulegum vinnubrögðum og í kringum vandræðagang vinstri manna. Þeir hafa flutt „fréttir“, dag eftir dag, um hina svokölluðu „sameiningu“ þó sameiningin hafi hvergi verið til nema í glans veröld fjölmiðlanna. Óteljandi beinar útsendingar hafa verið frá úrslitastundum í sameiningarferlinu en allt reynst plat þegar upp er staðið. Keisarar almenningsálitsins eru ekki í neinum fötum.

Fulltrúar A-flokkanna gerðu Kvennalistanum einstakt tilboð í fyrradag sem fólst í því að Kvennalistinn fengi 4. og 8. sætið á lista samfylkingarinnar í Reykjavík. Þetta var kynnt í fjölmiðlum af talsmönnum A-flokkanna sem tilboð um að Kvennalistinn fengi 2 þingmenn. Miðað við fylgi samfylkingarinnar í skoðanakönnunum má þó vart gera ráð fyrir að fylkingin fái nema 4 – 5 þingmenn í Reykjavík. Svo virðist einnig sem A-flokkarnir hafi gert samkomulag við Jóhönnu Sigurðardóttur um að hún fengi að velja sér sæti á listanum og samið við hana bak við tjöldin að hún veldi 4. sætið þ.e. sæti Kvennalistans. Þetta tilboð A-flokkanna til Kvennalistans sem í fjölmiðlum var kynnt sem tilboð um tvo þingmenn var í raun tilboð um að fá einn varaþingmann, sennilega hinn þriðja! Hvað segir það um álit formanna A-flokkanna á kvennalistakonum að þeir reyndu að fá þær til að bíta á agn sem þetta?

Líklega sér Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nú eftir því að hafa gefið loforð um að fara ekki landsmálapólítík á þessu   kjörtímabili borgarstjórnar. Sennilega væri skárra fyrir hana að taka þátt í samfylkingarsirkusnum en að svara fyrir frammistöðu R-listans í borgarstjórn síðustu vikur. Í fyrradag felldi settur félagsmálaráðherra Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins úr gildi þá ákvörðun meirihlutans í borgarstjórn að Pétur Jónsson taki sæti Hrannars B. Arnarssonar í borgarstjórn. Anna Geirsdóttir sem er fyrsti varamaður R-listans mun því taka sæti Hrannars en Pétur Jónsson verður settur á varamannabekkinn þar sem hann er í góðum félagsskap annarra alþýðuflokksmanna sem starfa með R-listanum. Vef-Þjóðviljinn ritaði nokkuð um þetta mál síðastliðið sumar og er úrskurður félagsmálaráðherra á sömu lund og það sem þar var sagt og hér má lesa.