Helgi Hjörvar borgarfulltrúi R-listans, verðandi forseti borgarstjórnar og einn þrautseigasti viðskiptavinur skattayfirvalda til margra ára lofaði því í sjónvarpsviðtali fyrir kosningar í vor að eitt helsta mál R-listans yrði lækkun gjalda á Reykvíkinga. Nú var það sem sé vitað að Helga væri margt til lista lagt þegar skattamál eru annars vegar en hækkun R-listans á sorptunnugjaldi úr 1.100 krónum í 6.000 krónur, hækkun á gjaldskrá fyrir hundahald og 1.000.000.000 króna hækkun á útsvari Reykvíkinga telst ekki lækkun. Helgi getur reynt eitt og annað í þessum efnum, en ekki þetta. Helgi skrökvaði einfaldlega fyrir kosningar eins og Ingibjörg Sólrún.
Vef-Þjóðviljinn í dag er í boði Arnarssonar og Hjörvars – brautryðjenda í lægri skattgreiðslum en gengur og gerist.
Í seðlabönkum heimsins starfar nú hálf milljón manna við að smyrja prentvélar og fylgjast með fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt nýlegu tölublaði The Economist er afar misjafnt hversu margir vinna í bönkum þessum í hlutfalli við íbúafjölda viðkomandi landa. Í Kína eru starfsmennirnir 8 á hverja eitthundrað þúsund íbúa og í Bandaríkjunum er þessi tala 9. Seðlabanki Svíþjóðar hefur svipaðan fjölda hlutfallslega og í Bandaríkjunum og Kína, en í Belgíu og Frakklandi, svo dæmi séu tekin, er þessi tala hátt í 30, eða þrefalt hærri.
Við Íslendingar getum vitaskuld fagnað sigri í þessu eins og öðru, því hér á landi eru starfsmenn Seðlabankans 52 á hverja eitthundrað þúsund íbúa. Hér verður ekki kveðið upp úr um hvort þessi fjöldi stafar af brýnni þörf eða af því að fylla þurfti allar skrifstofurnar í Seðlabankahúsinu.