Fimmtudagur 3. desember 1998

337. tbl. 2. árg.

Skattahækkanir R-listans frá því hann tók við stjórn Reykjavíkur árið 1994 nema tæpum 150.000 krónum á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni samkvæmt frétt í Viðskiptablaðinu í gær. Þetta er fyrir utan aukin umsvif vegna yfirtöku grunnskólans, þannig að sú vinsæla skýring R-listamanna dugar ekki. Staðreyndin er einfaldlega sú, eins og áður hefur verið nefnt hér í Vef-Þjóðviljanum, að R-listinn hefur gripið til sama óyndisúrræðis og vinstri menn gera ævinlega þegar þeir ráða ekki við opinber fjármál, þ.e. að hækka skatta í stað þess að gæta aðhalds.

ingibjorg_solrun.jpg (7838 bytes)
ingibjorg_solrun.jpg (7838 bytes)

Rökin sem borgarstjóri hefur gripið til í því skyni að réttlæta nýjustu skattahækkunina voru meðal annars þau að borgin hefði dregist aftur úr ríkinu og þyrfti því að hækka meira! Ríkið átti að hafa aukið skatttekjur sínar um 33% en borgin „aðeins“ um 24%. Þegar fjármálaráðherra benti borgarstjóra á að nú væri farið að færa bókhaldið á rekstrargrunni í stað greiðslugrunns neyddist borgarstjóri til að bakka með þessa skýringu sína. Tekjur ríkisins hafa aukist um 17% vegna aukinna umsvifa í þjóðfélaginu en ekki 33% eins og borgarstjóri hafði haldið fram og því mun minna en hjá borginni.

helgi_hjorvar.jpg (7282 bytes)
helgi_hjorvar.jpg (7282 bytes)

Önnur rök voru flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna, en eins og nefnt var hér að ofan hefur borgin hækkað skatta gífurlega þótt tillit sé tekið til flutningsins. Þar fyrir utan sömdu sveitarfélögin um flutninginn og geta ekki sagt nú að þau þurfi að hækka skatta meira hans vegna. Þessi rök standast ekki heldur.
Í þriðja lagi hefur borgarstjóri haldið því fram að gamall „undirliggjandi halli“ valdi hækkuninni. R-listinn hélt því þó fram í auglýsingum fyrir kosningar að hann hefði náð tökum á fjármálum borgarinnar. Og borgarstjóraefni R-listans, Helgi Hjörvar skattaspekúlant, sagði fyrir kosningar að eitt helsta loforðið væri að lækka gjöld á borgarbúa.

Nú hefur bæst við öll ósannindin í kringum skattahækkunina að borgarstjóri hefur beinlínis viðurkennt að hafa sagt ósatt fyrir kosningar af því að annað hafi ekki hentað. Það hlýtur einnig að mega gera ráð fyrir að krónprins listans hafi vitað af væntanlegum skattahækkunum þegar hann lofaði lækkun gjalda. Þau hafa því bæði, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Helgi Hjörvar, orðið ber að ósannsögli. Þau sitja bæði á fullkomlega röngum forsendum í borgarstjórn, því þau hafa viðurkennt að kjósendur fengu rangar upplýsingar fyrir kosningar. Það er því næsta augljós krafa að þau segi bæði af sér embættum. Borgarstjórnarfundurinn í kvöld er gott tækifæri fyrir þau til að lesa upp afsagnarbréf sín.