Ímyndum okkur fyrirtæki, Sveitta sveitarstjórnarmenn, sem er stjórnað af fulltrúum þeirra sem eiga 12% hlutafjár í fyrirtækinu. Hin 88% hluthafanna hafa ekkert um reksturinn að segja og engan atkvæðisrétt á fundum félagsins. Stjórnin (þessi 12%) greiðir sér 110 milljóna króna arð en hin 88% hluthafa fá ekkert. Þegar hluthafi utan stjórnar fellur frá gengur hlutur hans ekki til lögmætra erfingja hans heldur til minnihlutans sem stjórnar félaginu. Þannig hefur hlutur þeirra sem stjórna félaginu vaxið úr 7,2% árið 1994 í 12% í ár. Þökk sé manninum með ljáinn. Nú vill svo til að þau 12% sem stjórna félaginu eru í eigu hins opinbera, nánar tiltekið allmargra sveitarfélaga. Það fer fram einkavæðing á ríkisbanka. Stærsti kaupandinn er einmitt Sveittir sveitastjórnarmenn. Ríkisfyrirtækið verður að sveitafyrirtæki. Landsbanki allra sveittra sveitarstjórnarmanna!
En fyrirbærið Sveittir sveitarstjórnarmenn er einmitt til hér á landi. Það kemur svo sem ekki á óvart í öllum fáránleika ríkisrekins fjármálakerfis að svo sé. Fyrirbærið heitir nú Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands. Brunabótafélag Íslands naut þess lengi að ákveðin sveitarfélög skylduðu íbúa sína til að brunatryggja fasteignir sínar hjá félaginu. Um var að ræða gagnkvæmt tryggingarfélag en gagnkvæm tryggingafélög eru eign þeirra sem tryggja. Þeir bera ábyrgð á skuldbindingum þess og eignum. En því miður hafa tryggingartakar ekki fengið inneign sína greidda út eftir að félagið hætti tryggingastarfsemi og var breytt í Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands. Viðskiptablaðið áætlar að hlutur hvers tryggingartaka sem nú er á lífi sé um 26.500 krónur en tryggingartakarnir munu vera um 60 þúsund.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp nokkurra þingmanna um að slíta Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands og greiða réttmætum eigendum þess hluti sína. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur andmælt þessu frumvarpi enda vinnur tímans þungi niður með sveitarfélögunum í þessu máli.