Miðvikudagur 25. nóvember 1998

329. tbl. 2. árg.

Á forsíðu fréttavefsins visir.is í fyrradag birtist „frétt“ undir fyrirsögninni „Of mikið auglýsingaskrum í pólitíkinni“. Í fréttinni sagði: „73 af hundraði þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslu á Vísi í síðustu viku telja að auglýsingaskrumið í íslenskum stjórnmálum sé orðið of mikið. 27% svöruðu spurningunni neitandi. Þátttakendur voru ríflega 1000. Einungis eitt atkvæði er talið frá hverri tölvu.“
Þessi sláandi niðurstaða fékkst með því leggja fyrir fólk „hlutlausu“ spurninguna „Telur þú að of mikið auglýsingaskrum sé komið í íslensk stjórnmál?“ Eðlilegt væri að Vísir spyrði næst: „Telur þú að of mikið auglýsingaskrum sé komið í fréttaflutning visir.is?“

Mikil gæfa er það fyrir okkur hin að til eru einstaklingar sem bera hag heildarinnar jafn augljóslega fyrir brjósti og raunin virðist vera með Jóhannes Gunnarsson, formann hinna ríkisstyrktu Neytendasamtaka. Í viðtali á Þjóðbraut Bylgjunnar sl. mánudag mátti heyra Jóhannes stynja armæðulega yfir þeim óskiljanlega, að hans mati, verðskrárfrumskógi þeirra fyrirtækja er selja GSM-símaþjónustu. Í viðtalinu kom glögglega fram að Jóhannes hafði komist að þeirri niðurstöðu að vegna þeirra mörgu valmöguleika sem hinn hefðbundni neytandi hefði í viðskiptum sínum við símaþjónustufyrirtækin væri staðan á markaðnum þannig nú að ógjörningur væri að „velja rétt“. Jóhannes sagði að við þessu þyrfti augljóslega að bregðast, því hér væri á ferðinni „samfélagslegt vandamál“. Lagði hann til að ríkið tæki að sér að fylgjast með verðskrám fyrirtækjanna, því tryggja yrði að hagur þeirra yrði ekki fyrir borð borinn. Ef málið yrði ekki rannsakað af ríkinu sjálfu (hvernig svo sem ætti að framkvæma það), vildi Jóhannes að málið yrði falið Samkeppnisstofnun eða (sic!) Neytendasamtökunum.
    
Hér er rétt að staldra aðeins við. Ljóst er að formaður Neytendasamtakanna treystir hinum almenna neytanda á engan hátt til að  velja á hvaða hátt hann tengist símafyrirtæki. Varpa má þeirri spurningu til Jóhannesar hvort ekki væri athugandi í þessu samhengi að endurvekja verðlagseftirlit ríkisins, í ljósi þess stórkostlega árangurs sem það fyrirbæri náði við að „stýra“ verðlagi neytendum til heilla! Ef sjónarmið Jóhannesar í þessu máli eru rétt, hví leggur hann þá ekki einnig til að brugðist verði við hinu hrópandi „samfélagslega vandamáli“ sem er mismunandi útsöluverð hinna mýmörgu tímarita sem eru hér á markaði, nú eða mismunandi útsöluverð á flóknum tækjum eins og bílum.

Allur þessi málatilbúnaður formannsins er raun enn eitt lóðið á þá vogarskál að tímabært er fyrir ríkið að skera á fjárframlög til samtakanna, en á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er ausið 3,5 milljónum úr sjóðum allra landsmanna til Jóhannesar og félaga. Neytendasamtökin státa á heimasíðu sinni af 19.000 félagsmönnum, sem væntanlega hafa allir kosið af fúsum og frjálsum vilja að leggja samtökunum fjárhagslegt lið. Gott og vel. En hinir hafa kosið að gera það ekki. Fjármálaráðherra ætti að hugleiða þá staðreynd.