Á dögunum efndu nokkrir vinstrimenn til mótmælastöðu við breska sendiráðið í Reykjavík. Tilefnið var að bresk yfirvöld höfðu handtekið Pinochet fyrrum forseta Chile. Afhentu vinstrimennirnir furðu lostnum sendiherra Breta sérstakt mótmælaskjal. Engu að síður studdu mótmælendurnir handtökuna! Hefði þá líklega verið nærtækara fyrir þá að mótmæla við ýmis önnur sendiráð. T.d. sendiráð þeirra landa sem Pinochet hefur valsað um óáreittur.
Og af því að vinstrimönnum þykir svo gaman að láta sér verða kalt í mótmælastöðu má geta þess að í Kína eru framin mannréttindabrot sem gefa hrottaskap Pinochet ekkert eftir. Hér á landi er nú staddur varautanríkisráðherra Kína. Fyrir áhugamenn um mótmælastöðu ætti þetta að vera kærkomið tækifæri. En líklega dugar hugsjónaeldurinn ekki til að halda mönnum heitum í mótmælastöðu gegn mannréttindabrotum jafnaðarmannastjórnarinnar í Peking.
Heilög Jóhanna Sigurðardóttir fer nú mikinn og fossar af henni hneykslunin. Þannig er mál með vexti, að eftir að farið var að skattleggja fjármagnstekjur getur margt fólk sem vinnur á eigin vegum, oft nefnt einyrkjar, verið starfsmenn eigin fyrirtækis og tekið ágóðann af vinnu sinni sem arð en ekki tekjur. Greiðist þá 10% skattur af upphæðinni en ekki 39,02% tekjuskattur. En hafa verður í huga að þá þegar hafa fyrirtækin greitt 33% tekjuskatt þannig að heildarskatturinn er 39,7% eða heldur hærri en venjulegir launþegar greiða í tekjuskatt. Þetta finnst Jóhönnu ekki gott og æpir nú á torgum að hér hafi opnast möguleiki á skattaundanskotum og máli sínu til stuðnings spangólar hún þann frasa sem iðulega er gripið til þegar engin rök finnast: Löglegt en siðlaust, óóó.
Jájá, bla bla bla, en eftir að heilög Jóhanna sá síðasta vor ekkert athugavert við borgarstjórnarkjör tveggja kóna sem árum saman höfðu svikist um lögbundnar skattgreiðslur sínar, þá ætti hún að hlífa almenningi við upphrópunum um það sem þó er löglegt.
Frasinn löglegt en siðlaust hefur oft verið notaður í upphrópanir undanfarin ár en ekki eru allir sem vita um uppruna hans. Margir rekja hann þó til Vilmundar Gylfasonar þó þeir viti ekki um tilefni orðanna. Vilmundur hafði þessi orð í sjónvarpsþætti þar sem hann og Eðvarð Sigurðsson formaður Dagsbrúnar ræddu laun verkalýðsforingja.