Miðvikudagur 11. nóvember 1998

315. tbl. 2. árg.

Nú hefur Samband ungra jafnaðarmanna gengið úr Gjósku félagi ungra samfylkingarmanna. Svona til að undirstrika áhuga sinn um samfylkingu. Nema hvað! SUJ heldur annars úti heimasíðu á Netinu en miðað við ellimerkin á þeim upplýsingum sem þar er að finna er ekki víst að þeir ungu jafnaðarmenn sem settu síðuna upp á sínum tíma séu ungir lengur. Sérstök athygli er vakin á Símaskrá ungra jafnaðarmanna en ekki er algengt að stjórnmálafélög hafi á Netinu jafn ítarlega símaskrá þar sem einungis vantar símanúmer nokkurra félagsmanna.

Um síðustu jól kom út bók Esra S. Péturssonar „Sálumessa syndara“ og olli hún mikilli hneykslan sökum þess að Esra rauf trúnað við fyrrum sjúkling sinn og olli þannig eftirlifandi fjölskyldu sárindum. Í ár er kominn út verðugur arftaki bókarinnar, ævisaga Steingríms Hermannssonar, og væri réttnefni hennar „Sálumessa syndara II“.

Í útdrætti sem birtist í Morgunblaðinu um helgina segir Steingrímur hróðugur: „Fyrsti bíllinn minn var forláta blæjujeppi af Willysgerð. Ég keypti hann á nafni bónda í Borgarfirði því að bændur fengu niðurfellingu á tollum og gjöldum af slíkum bifreiðum. Þær voru taldar til landbúnaðartækja. Pabbi var ekki hrifinn af þessu í fyrstu en tók jeppann seinna í sátt og fór á honum í kosningaferðalög um landið.“

Faðir Steingríms var forsætisráðherra og átti mikinn þátt í að koma haftakerfinu á hér á landi. Nú upplýsir Steingrímur að faðir hans hafi látið það óátalið að sonurinn hafi svindlað á kerfinu og að hann hafi í raun gerst þjófsnautur með því að nota sér bifreiðina. Það sem Steingrímur upplýsir því er að á meðan að haftastjórn var hér í algleymingi hafi forsætisráðherrann ekki talið að reglurnar ættu við sig og sína.

Fyrir þá sem hafa undrast hegðan Steingríms í gegnum tíðina kann þessi uppeldisþáttur að að varpa nokkru ljósi á það sem síðar átti eftir að verða umdeilt í fari hans. Þótt Steingrími þyki ástæða til að stæra sig af þessu atriði hefur hann nú, óafvitandi, skipað sér og föður sínum á sakamannabekk sögunnar.