Eins og menn vita skipta starfshópar í heilbrigðiskerfinu árinu bróðurlega á milli sín og tryggja að landsmenn fái fréttir af verkföllum, hópuppsögnum, neyðarástandi og almennri óánægju á sjúkrahúsum allan ársins hring. Þessa dagana standa meinatæknar vaktina og hafa ekki misst úr fréttatíma í nokkrar vikur. Vegna þessarar deilu milli ríkisins og meinatækna hefur sú hugmynd skotið upp kollinum að einkavæða rannsóknarstofur í heilbrigðiskerfinu. Fulltrúi Bandalags háskólamanna upplýsti landsmenn hins vegar um það í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að ef einkaðilar tækju rekstur rannsóknarstofa sjúkrahúsanna að sér myndi kostnaður margfaldast. Helstu rök fulltrúans fyrir þessari skoðun sinni voru þau að laun hjá einkafyrirtækjum væru mun hærri en hjá ríkinu!
Það kemur auðvitað ekki á óvart að fulltrúi stéttarfélags opinberra starfsmanna skuli andvígur einkavæðingu enda fækkar þá félögum í viðkomandi stéttarfélagi. Það er hins vegar óvenju hreinskiptið hjá fulltrúa stéttarfélags að játa það í sjónvarpsfréttatíma að hann sé andvígur því að laun félagsmanna sinna hækki. Og það er líklega rétt hjá fulltrúanum að laun meinatækna og annars starfsfólks á rannsóknarstofum myndu hækka ef þær væru einkavæddar. En það er ólíklegt að kostnaður myndi hækka enda gæti ríkið boðið þjónustuna út. Samkeppnin knýr menn til hagræðingar og til að leita nýrra lausna sem skila sér í lægra verði. Hvort sem um bakarí eða blóðrannsóknir er að ræða.