Misjafnt er hvers kyns orðbragð mönnum leyfist í opinberri umræðu. Væntanlega fyndist fremur fáum viðeigandi að kenna pólitíska andstæðinga sína við alkunnar helstefnur og nefna þá nöfnum eins og til dæmis nasisti eða kommúnisti. En sumir eru þannig gerðir að þeir sjá fátt athugavert við slíkt.
Undanfarið hefur DV, frjálst óháð dagblað undir ritstjórn Össurar Skarphéðinssonar þingmanns Alþýðuflokksins, keppst við að koma nafninu talebanar á þá vinstri menn sem ekki hafa geð í sér til að taka þátt í samfylkingu með Össuri Skarphéðinssyni, Sighvati Björgvinssyni og Ágústi Einarssyni. Fyrst í stað var hinn nýorðni pólitíski dálkur, Sandkorn notaður í þessum tilgangi (yfirleitt með nafninu Reynir Traustason undir) en síðar hafa DV-menn fært sig upp á skaftið. Í fyrradag var svo birt fréttaskýring þar sem í yfirfyrirsögn var talað um titring í Alþýðubandalaginu vegna nýs flokks talebana! Og í fréttaskýringunni sjálfri eru þeir vinstri menn, sem ekki styðja samfylkingarliðið, sjö sinnum nefndir talebanar. Þetta nafn er aldrei haft innan tilvitnunarmerkja og ekki einu sinni sagt svokallaðir talebanar eða nokkur fyrirvari hafður. Nei, talebanar skulu þeir heita. Varla þarf að hafa uppi mörg orð uppi um stjórnarhætti þá sem talebanar hafa notast við í Afghanistan undanfarin misseri en engu að síður finnst össurum Frjálsrar fjölmiðlunnar vel viðeigandi að nota þetta nafn um þessa íslensku vinstri menn.
Um síðustu helgi setti Kvennalistinn svo fram ákveðnar kröfur um tilhögun framboðslista hinnar væntanlegu samfylkingar. Þessar kröfur hafa farið mjög fyrir brjóstið á leiðtogum A-flokkanna. Og það er eins og við manninn mælt, DV var um leið komið í stríð við Kvennalistann. Á forsíðu DV á mánudaginn mátti lesa eftirfarandi skrifað með stríðsletri: Kvennalistinn varpar sprengju í viðræður A-flokkanna um samfylkingu. Mála sig út í horn. Afar óskynsamlegar kröfur.
Flestir eru hættir að undrast þá ákvörðun eigenda Frjálsrar fjölmiðlunar að taka Össur Skarphéðinsson inn á blað sitt, tugmilljóna hlutafjárkaup Ágústs Einarssonar í útgáfufyrirtæki þeirra segja flestum næga sögu. Hitt hlýtur að vekja furðu að þeir skuli ekki nú þegar hafa áttað sig á því að DV er orðið álíka aðlaðandi lesning og Þjóðviljinn sálugi var þegar Össur sá um pólítísku skrifin, Silja Aðalsteinsdóttir um menningarskrifin, Árni Bergmann um greinaskrifin gegn heimskapítalismanum og Sigurdór Sigurdórsson um slefburðinn. Það blekkir engan að Reynir hefur leyst Sigurdór af.