Um þessar mundir er verið að skoða hvernig ólögleg fíkniefni hurfu úr vörslu lögreglunnar. Af og til berast svo af því fréttir að neysla ólöglegra fíkniena eigi sér stað inna fangelsismúra. Þetta er ekkert séríslenskt. Engu að síður dettur mönnum í hug að hægt sé að koma í veg fyrir flutning þessara efna milli landa. Gífurlegum fjármunum er varið í lögregluaðgerðir og tollgæslu auk þess sem kostnaður dómskerfis og fangelsa er mikill vegna fíkniefnamála.
Við umfangsmiklar lögregluaðgerðir bætist svo að almenningur hefur sem von er mikla andúð á þessum fíkniefnum. Engu að síður berast þau til landsins og eru seld hér hverjum sem vill. Bannið við fíkniefnunum virðist bera furðu lítinn árangur þegar það er haft í huga hversu hart er sótt að sölumönnum efnanna. En bannið hefur ýmsar aðrar afleiðingar.
Í fyrsta lagi er verð efnanna mun hærra en ella. Það þýðir að neytendur þeirra þurfa að hafa allar klær úti til að fjármagna neysluna. Oft gera þeir það með afbrotum, innbrotum og ránum, sem bitna á saklausum borgurum. Stór hluti innbrota í bíla, fyrirtæki og heimili er einmitt framinn af fíkniefnaneytendum sem vantar fé fyrir næsta skammti. Með því að banna fíkniefni færist verslun með þau í undirheimana. Þar er ekkert neytendaeftirlit og neytendur hafa litla hugmynd um hvað þeir eru að kaupa. Menguð efni, of stórir skammtar og skortur á viðeigandi sóttvörnum við neyslu valda mörgum neytendum heilsutjóni og dauða. Mikill hagnaður getur verið af sölu ólöglegra fíkniefna. Þessi hagnaður er oft notaður til að fjármagna aðra undirheimastarfsemi og til að múta löggæslumönnum. Fíkniefnamál bjóða nefnilega upp á það að löggæslumönnum sé mútað þar sem ekkert fórnarlamb er til staðar sem rekur á eftir rannsókn mála. Í þeim löndum sem efnin eru framleidd starfa heilar herdeildir á vegum stærstu framleiðendanna og fara sínu fram við yfirvöld, með góðu (mútum) eða illu (misþyrmingum og morðum). Upp úr þessu spretta svo alþjóðleg glæpasamtök.
Ef banni við þeim fíkniefnum sem eru ólögleg í dag yrði aflétt myndi verð þeirra falla niður í brot af því sem það er í dag. Neytendur yrðu ekki nauðbeygðir til að fjármagna neysluna með afbrotum. Sala efnanna færðist að öllum líkindum til lyfsala sem gætu tryggt gæða efnanna og útvegað sótthreinsuð áhöld til að neyta þeirra. Hinn mikli hagnaður af sölu efnanna hyrfi og glæpasamtök myndu tapa bestu mjólkurkú sinni. Draga myndi úr spillingu innan lögreglunnar og framleiðendur efnanna hefðu ekki lengur bolmagn til að storka yfirvöldum með ofbeldi.
En það er fráleitt að lögleyfing fíkniefna myndi leysa menn undan fíkninni sjálfri. Vafalaust yrði áfram til ógæfusamt fólk sem ánetjast þessum efnum. En það væri ekki lengur rekið í afbrot á sama hátt og nú og gæti gengið að því sem vísu að næsti skammtur sé ekki mengaður og þar með hinn síðasti. Ef fíkniefnin væru uppi á yfirborðinu í stað þess að vera í undirheimunum væri auk þess auðveldara að veita því fólki aðstoð sem vill losna við fíknina. Það væri ekki hundelt af yfirvöldum og liti ekki á kerfið eða aðra þjóðfélagsþegna sem andstæðinga sína. Skrefið til að óska aðstoðar væri því styttra en nú er, sem og skrefið yfir í líf án fíknar.