Laugardagur 24. október 1998

297. tbl. 2. árg.

Í fyrradag var á Alþingi rætt um leiklistarlög. Umræðan gekk eins og yfirleitt að mestu leyti út á það hvernig ætti að koma skattfé flestra landsmanna í hendur sumra þeirra. Tæknileg atriði eins og hvert skuli vera valdsvið Þjóðleikhússstjóra eða hvaða leikhús skyldu nefnd í lögunum ollu t.d. nokkrum deilum. En þá gerðist það sem mörgum kemur sjálfsagt á óvart, að einn þingmanna steig í pontu og lýsti yfir miklum efasemdum um það að ríkið ætti yfirleitt að „taka úr einum vasa skattgreiðandans og setja í annan,“ eins og flest umræða um menningarmál virðist því miður ganga út á.

Þessi þingmaður, Pétur Blöndal, taldi einnig afar hæpið að meta og mæla hversu góð eða slæm tiltekin menningarstarfsemi væri og var því þeirrar skoðunar að misháir styrkir til frjálsra leikhúsa annars vegar og ríkishúsa hins vegar ættu ekki rétt á sér. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að menning væri það sem fólk veldi sjálft en ekki það sem einhver nefnd hins opinbera skilgreindi sem menningu.

Svanfríður Jónasdóttir lýsti sig ósamþykka þessu og var greinilega þeirrar skoðunar að hún og aðrir álíka vísir menn væru vel til þess fallnir að mata fólk á „réttri“ eða „góðri“ menningu. Þegar hún og félagar hennar væru búnir að setja fé skattgreiðenda í suma menningarviðburði en aðra ekki og skekkja þannig mynd fólks af þeim kostum sem eru í boði var það þó skoðun hennar að aðsókn sýndi hvort tiltekinn atburður væri vinsælli en annar. Það er ekki gott að segja hvernig Svanfríði dettur slík röksemdafærsla í hug, en hafi hún rétt fyrir sér hafa Sovétríkin fyrrverandi sjálfsagt búið við markaðshagkerfi og biðraðirnar þar gefið rétta mynd af framboði og eftirspurn.