Þriðjudagur 20. október 1998

293. tbl. 2. árg.

Það er ekki ónýtt að hafa hámenntaða þingmenn. Einn slíkur að eigin sögn hefur nú lagt fram á Alþingi mál og segir sjálfur að „um brýnt mál [sé] að ræða“. Þeir sem hlýddu á þingmanninn, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, í gær sperrtu eyrun, enda áttuðu þeir sig á því miðað við þungann í röddinni að hér væri komið mál þingsins. Þetta væri það sem réði úrslitum. Og svo kom málið: Ráðherra skyldi héðan í frá ekki heita ráðherra heldur eitthvað allt annað. Guðný kom að vísu „af ásettu ráði“ ekki með ákveðið eftirlætisorð yfir þetta embætti, heldur taldi t.d. koma til greina að nú færi fram „vel auglýst samkeppni yfir verðugt orð.“

Að vísu hafði þingmaðurinn – afsakið, þingkonan – áhyggjur af því að með því að kasta þessu út til þjóðarinnar í almenna umræðu kæmu margar óæskilegar hugmyndir fram. Þar sem fleiri titlar eru undir en ráðherra, t.a.m. sendiherra, kynni að koma upp hugmynd um að nota „senditík fyrir sendiherra, sem að sjálfsögðu er með öllu óviðunandi“. Loks taldi þingmaðurinn að rétt væri að mál af þessari stærðargráðu fengi flýtimeðferð. Þannig yrði með einhverjum hætti reynt að komast í kringum þá staðreynd að talað er um ráðherra í stjórnarskrá, því málið þyldi ekki þá bið sem fylgir breytingu á stjórnarskrá.

Þriðja leiðin er gamalt slagorð sem sænskir jafnaðarmenn notuðu um velferðarkerfi sitt áður en það fór á hausinn. Átti slagorðið að skýrskota til þess að stefna þeirra væri blanda af kapítalisma og sósíalisma. Lítið hefur spurst til þessa slagorðs undanfarin ár að því undanskildu að Vaclav Klaus fyrrum forsætisráðherra Tékklands lét svo um mælt að þriðja leiðin lægi til þriðja heimsins. Enda hefur þriðja leiðin (öðru nafni „mannlegur sósíalismi“) verið reynd til þrautar í ýmsum eymdarríkjum þriðja heimsins svo sem Kúbu. Nú hafa jafnaðarmenn í Evrópu þó dustað rykið af þessu slagorði og þess verður væntanlega skammt að bíða að íslenskir jafnaðamenn bjóði upp á þriðju leiðina.

Í leiðara Össurar Skarphéðinssonar, frjáls og óháðs ritstjóra DV, í gær er ekki laust við að þriðja leiðin geri vart við sig og gott ef ekki sú fjórða líka. Þar skrifar Össur um möguleika almennings til að spara: „Ríkið á nefnilega ekki að hugsa fyrir fólk. Það á sjálft að taka ákvarðanir um eigið líf.“ Og Össur tekur sérstaklega fram að það sé „rangt að stýra sparnaðinum með handafli.“ Það er auðvitað ánægjulegt að Össur telji nú loks að fólk eigi að fá að hugsa svolítið sjálft en þó má greinilega ekki ganga of langt í þeim efnum að hans mati. Össur telur nefnilega svo vitnað sé áfram í  leiðarann að fólk eigi að fá skattaaflsátt ef það sparar með fjórum leiðum: Hlutabréfakaupum, framlagi í lífeyrissjóð, húsnæðissparnaði og framlögum í námssjóði barna sinna. Annað ekki.  „Það er neikvætt að veita fólki ekki frelsi til að velja sjálf leiðirnar til að spara.“, segir Össur svo í lok leiðarans!

Össur vill semsé veita fólki frelsi til að hugsa en þó bara um þær fjórar sparnaðarleiðir sem honum sjálfum hugnast. Þeir sem vilja festa fé sitt í öðru en fjórfrelsi Össurar geta átt sig með sínar hugsanir.