Mánudagur 19. október 1998

292. tbl. 2. árg.

Fyrir ekki svo mörgum árum var einkavæðing ríkisfyrirtækja vart komin á kortið sem pólítískt framkvæmanleg hugmynd. Margt hefur þó breyst á undanförnum árum og nú reynir engin flokkur í ríkisstjórn að ná endurkjöri án þess einkavæða svolítið fyrst. Hvort sem það eru sósíaldemókratar í Danmörku sem selja ríkissímann til bandarísks fyrirtækis eða framsóknarmenn á Íslandi sem fyrir nokkrum árum töldu það algjört grundvallaratriði að ríkið ræki a.m.k. einn banka (fyrir utan Seðlabankann). Og nú hefur framsóknarráðherrann Guðmundur Bjarnason einkavætt kortasölu Landmælinga Íslands. Það hefði enda haft nokkur áhrif á kortasöluna ef hún hefði verið flutt upp á Akranes með Landmælingum – bæði vegna staðsetningarinnar og þeirrar staðreyndar að engir starfsmenn verða víst til staðar.

Skoðanir fréttamanna á mönnum og málefnum koma stundum fram í fréttatímum, ýmist í því sem þeir segja eða því sem þeir segja ekki. Nú um helgina hefur verið sagt frá því að Augusto Pinochet Ugarte, fyrrverandi forseti Chile, hafi verið handtekinn í London. Undantekningarlaust er forsetinn fyrrverandi kallaður „harðstjóri“ og „einræðisherra“. Og víst er um það, að margt var það í stjórnarháttum í Chile, frá því Pinochet varð forseti árið 1974 þar til hann lét af því embætti árið 1989, sem ekki var geðfellt. Fullvíst má telja að stjórnmálaleg réttindi almennings hafi verið lítil sem engin og pólítískir andstæðingar forsetans hafi mátt þola alls kyns harðræði. Það er því umhugsunarefni, hvers vegna fréttamenn kalla Mikhail Gorbatsjov ævinlega einungis „fyrrverandi forseta Sovétríkjanna“ en aldrei „einræðisherra“ eða „harðstjóra“ og tala aldrei um að hann kunni að bera ábyrgð á nokkrum mannréttindabrotum í Sovétríkjunum.

Það veldur stundum ruglingi að einn helsti hægri flokkurinn í Danmörk nefnist „Venstre“. Flestir þeir sem fylgjast með því sem hæst ber, vita þó hvers eðlis flokkurinn er. Að minnsta kosti verður að ætla að fréttamenn geri það. Þess vegna var athyglisvert að fréttamenn Ríkisútvarpsins sögðu hlustendum frá því í gær að fylgi „vinstri flokksins“ í Danmörk ykist nú mjög. Hlustendum var greinilega ætlað að álykta sem svo að mikil vinstri sveifla væri nú í Danmörk. – Hafi það ekki verið ætlunin er stórkostleg vanþekking eina skýringin á orðalagi fréttastofunnar.