Helgarsprokið 11. október 1998

284. tbl. 2. árg.

Og þá hafa áfengisauglýsingar enn og aftur komist í sviðsljósið. Á föstudaginn veigraði héraðsdómur Reykjavíkur sér við að fallast á kröfu ákæruvaldsins um sakfellingu vegna áfengisauglýsinga Ölgerðarinnar sem birtar höfðu verið í ýmsum myndum. Kröfunni var í raun hafnað af formsástæðum, þ.e. að ekki hafi réttum aðila verið stefnt. Þannig er dómurinn keimlíkur öðrum eldri sem einnig sýknaði á nokkurn veginn formlegum grundvelli þegar hann taldi áfengisaumfjöllun í dagblaði ekki ,,auglýsingu“’ í eiginlegri merkingu. Það sem er athyglivert við dóminn frá því á föstudaginn er í sjálfu sér ekki sýknan sem slík heldur ummæli í forsendum dómsins.  Dómarinn kýs að fjalla um tengsl áfengislaga við stjórnarskrána. Áfengislögin kveða á um bann við áfengisauglýsingum en stjórnarskráin kveður á um tjáningarfrelsi sem ekki megi skerða nema brýna nauðsyn beri til. Þarna ber augljóslega eitthvað í milli.

Nú er reyndar svo komið í þjóðmálaumræðu síðari ára að menn vísa óspart til stjórnarskrárákvæða og mannréttindasáttmála til stuðnings kröfum sínum. Og ekki hefur það farið minnkandi eftir að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var breytt og hún gerð á margan hátt „ítarlegri“ eins og það kallast víst. Allt á þetta að vera til að tryggja réttindi manna og frelsi. Má í þessu sambandi minna á að hvergi hafa verið fínni stjórnarskrár en í harðstjórnarríkjum þar sem mannréttindi eru einatt fótum troðin.  Hér á landi hættir mönnum til að trúa því að rétt sinn finni þeir alltaf einhvers staðar skrifaðan, sérstaklega í stjórnarskrá. Ef stjórnarskráin segir það, þá er það svo. Á sama hátt fer fólk að trúa því að hægt sé einfaldlega að svipta menn rétti sínum með skrifuðum texta einhvers sem telur sig þar til bæran. Ef stjórnarskráin heimilar skerðingu réttar þá sé allti í lagi að hún fari fram.

Í dóminum sem hér er til umfjöllunar víkur dómarinn að mikilvægum atriðum í þessu sambandi, hvort sem það nú beinlínis á að renna stoðum undir niðurstöðu hans eða ekki. Hann telur að ekki hafi verið lögð fram gögn sem sanni þá brýnu nauðsyn sem stjórnarskráin áskilur því tjáningarfrelsi sem auglýsingabann er og klykkir út með því að sterk rök þurfi að vera fyrir hendi til að brjóta gegn stjórnarskránni á þennan hátt. Sjálfsagt taka ekki allir undir það að sérstaklega þurfi að sanna þörfina fyrir auglýsingabanninu. Löggjafinn hefur einfaldlega metið það svo að hún sé fyrir hendi og er hann í fullum rétti til þess, eða svo segir stjórnarskráin sem menn vilja endalaust líta til.

Það sem úr þessum dómi má lesa er að gamalreyndur héraðsdómari telur þetta auglýsingabann ólög, þótt hann veigri sér að sjálfsögðu við að dæma á þeim grundvelli beinlínis. Nú er bara að bíða eftir framhaldinu á þessum farsa sem tekinn verður upp hjá Hæstarétti. Brýnt er að menn ranki við sér og átti sig á alvarleika málsins sem felst í frelsisskerðingunni sem á sér stað og eyði þessum ólögum, hvort sem stjórnarskráin taki fyrir slík ólög eða ekki og hvað sem Hæstiréttur segir. Og það þarf að gerast á Alþingi.