Því er stundum haldið fram að ekki sé þörf á sparnaði hjá hinu opinbera á meðan ríkissjóður er rekinn með afgangi – eins og nú er. Jafnvel megi auka framlög til góðu málanna en af þeim er víst nóg. En ríkissjóður er rekinn með afgangi vegna þess að skatttekjur hafa vaxið hraðar en útgjöldin. Afgangurinn er því ekki vegna niðurskurðar heldur þrátt fyrir aukna eyðslu.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að ríkissjóður hefur undantekningarlítið verið rekinn með halla á undanförnum 20 árum. Þennan halla hafa menn fjármagnað með lántökum. Þrátt fyrir að ríkissjóður sé frægur fyrir að svindla á almenningi (m.a. með því að prenta peninga sem fallið hafa í verði um tugi prósenta á ári) gera lánveitendur almennt ráð fyrir því að fá endurgreitt. Það er einmitt greiðsla þessara skulda sem ætti að vera aðalatriðið hjá ríkissjóði um þessar mundir ásamt því að lækka skattprósentur, bæði virðisaukaskatt og tekjuskatt. Þá mætti fella niður þá augljósu mismunun sem sjómannaafslátturinn og hátekjuskatturinn eru.
Á Alþingi er nú rætt um það hvort Ísland skuli nú þegar staðfesta Kyoto samkomulagið. Nokkrir áhugamenn á vinstri vængnum um tafarlausa lífskjaraskerðingu, hvort sem hún verði framkvæmd með skattheimtu eða einhvers konar Kyoto-samningi, bera þessa tillögu fram. Það er varla hægt að segja að nokkur þingmaður hafi orðið til að vara við öfgasjónarmiðum svokallaðra umhverfissinna í þessu máli, en varnaðarorð forsætisráðherra um síðustu áramót eru þó undantekning.
Á þingfundi um daginn bættist Pétur H. Blöndal í hóp þeirra sem kjósa að ræða þessi mál af yfirvegun og hleypidómalaust. Hann benti m.a. á að ekkert hefði komið fram í umræðunum á Alþingi um að koldíoxíð-kenningin um hitabreytingar væri hugsanlega röng og hann minnti þingmenn á að efasemdir hefðu komið fram um þessa kenningu á undangengnum árum. Hann minnti menn jafnframt á að rétt væri að setja fyrirvara við slíkar kenningar, því margar vísindakenningar hefðu reynst rangar. Þar nefndi þingmaðurinn t.d. kenninguna um að jörðin væri flöt.
Hugsanlega af tillitssemi við Hjörleif Guttormsson, einn helsta hvatamann öfgastefnu í umhverfismálum, nefndi Pétur ekki aðrar þær vísindakennningar, svo sem hinn hávísindalega sósíalisma, sem Hjörleifur og ýmsir samherjar hans í umhverfismálum hafa barist fyrir en síðar þurft að horfa eftir á öskuhauga sögunnar. Nær væri að Hjörleifur og hans menn einbeittu sér að því að leysa umhverfisvanda nefndra öskuhauga en að reyna að koma Íslendingum inn í stórgallað Kyoto-samkomulag.