Laugardagur 10. október 1998

283. tbl. 2. árg.

Lánlausir og tvístraðir jafnaðarmenn á Alþingi hafa komið sér saman um tillögu til þingsályktunar. Þessi samstaða hefur verið sérstakt fréttaefni undanfarna daga enda ekki á hverjum degi sem þingmönnum úr stjórnarandstöðuflokkunum tekst að ná saman  um annað en að leggja eigi flokka þeirra niður. Tillagan ber þess merki að menn hafa leitað að lægsta samnefnaranum.

Í henni er gert ráð fyrir að „Alþingi feli ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna  um loftslagsbreytingar.“ Helsti rökstuðningur flutningsmanna felst í því að nágrannalönd okkar hafi þegar undirritað samninginn. Þetta á þó ekki við um Bandaríkin en án þátttöku þeirra er bókunin lítils virði. Bandaríkjamenn hafa nefnilega áttað sig á því að á meðan Kína, Indland, Brasilía og önnur svonefnd þróunarlönd taka ekki þátt í samningum mun hann einungis hafa þau áhrif að fyrirtæki sem þurfa að gefa frá sér mikið magn svonefndra gróðurhúsalofttegunda flytja einfaldlega til þróunarlandanna. Til dæmis til Kína þar sem orka er framleidd í stórum stíl með kolabruna. Flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar þykir sjálfsagt betra að álver og annar orkufrekur iðnaður fari til Kína en hingað til lands þar sem vatnsaflið er allsráðandi.

Í næsta mánuði verður haldin í Buenos Aires framhaldsráðstefna af Kyoto fundinum. Þar verða ræddar leiðir fyrir þjóðir á borð við Íslendinga sem búa yfir orkulindum sem gefa ekki frá sér gróðurhúsalofttegundir. Engu að síður vilja jafnarðarmennirnir að við undirritum „nú þegar“!
Þess ber svo að geta að þótt allar þjóðir heims undirgengjust Kyoto-bókunina og færu eftir henni þá hefði það engin áhrif á hitastig andrúmsloftsins næstu 50 árin. Hvað ætli jafnaðarmennirnir haldi að gerist í andrúmsloftinu ef Íslendingar undirrita ekki „nú þegar“? Í greinargerð með tillögu jafnaðarmannanna eru engar raunhæfar tillögur um hvernig við gætum staðið við Kyoto-bókunina. En kannski er nóg að skrifa undir eins og jafnaðarmaðurinn og umhverfisráðherrann Eiður Guðnason hér um árið í Ríó án þess að hafa hugmynd um hvernig standa á við allt saman. Eftirmaður Eiðs í umhverfisráðuneytinu og einn flutningmanna þingsályktunartillögunnar Össur Skarphéðinsson sá svo um að ekki var staðið við Ríó-sáttmálann af Íslands hálfu. En það gerðu ekki heldur nágrannaþjóðir okkar sem allar skrifuðu undir sama plagg og Eiður.

Hópur samtaka atvinnurekenda, bænda og launafólks í Bandaríkjunum fór nýverið af stað með auglýsingaherferð gegn Kyoto samningum. Lesa má um hvað þau hafa fram að færa þeirra á þessari heimasíðu. Á þessari heimasíðu má svo renna yfir nöfn tæplega 17.000 vísindamanna sem telja engar forsendur til aðgerða vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og því beri að hafna Kyoto samningum.