Sækjast sér um líkir. Í gærkvöldi var sýndur þáttur í Ríkissjónvarpinu sem varpar ljósi á náið samstarf Stalíns og
Hitlers fyrir og eftir að síðari heimstyrjöldin hófst. Eftir að skjalasöfn í Rússlandi og Póllandi hafa verið opnuð á síðustu árum hafa nýjar upplýsingar komið fram um hve víðtæka samvinnu þýskir þjóðernissósíalistar og rússneskir kommúnistar höfðu um ýmis mál. Átti þetta ekki síst við um hermál en ríkin skiptust á hráefnum, vélum og vígtólum. Í þættinum í gærkvöldi kom m.a. fram að hvernig skipting Póllands milli Hitlers og Stalíns var ákveðin í smáatriðum á leynifundum utanríkisráðherra þeirra. En samvinnunni var ekki lokið þótt Póllandi hefði verið skipt. Þýska leynilögreglan og sú rússneska höfðu samvinnu um að myrða Pólverja sem líklegir voru til að malda í móinn við innrásarherina. Stalín lagði svo Hitler til flotastöð í Múrmansk til að auðvelda innrás nasista í Noreg og tryggði þýska hernum næga olíu til innrásarinnar í Frakkland. Er þá fátt eitt talið í viðskiptum þessara mestu illmenna 20. aldarinnar.
Nú þykir það ekki beinlínis fínt í dag að hafa verið hallur undir Hitler og hans kumpána. Hafa ýmsir þurft að gera hreint fyrir sínum dyrum vegna þess. En svo virðist sem það þyki ekkert tiltökumál að hafa verið inn undir hjá Stalín. Hannes Hólmsteinn Gissurarson vekur á því athygli í grein í nýjasta tölublaði Mannlífs að hér á landi starfar fyrirtæki sem þáði í kalda stríðinu mikla fjárstyrki úr sjóðum rússneskra kommúnista, enda gaf fyrirtækið út fjölda bóka til varnar stalínismanum. Um þetta vitnar Hannes til skjala sem fundist hafa í Moskvu að undanförnu. Þetta fyrirtæki er bókaútgáfan Mál og menning. Hvað ætli stjórnendur Máls og menningar gert til að gera hreint fyrir sínum dyrum? Nákvæmlega ekki neitt!
Það hlýtur svo að vekja sérstaka athylgi að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjórinn í Reykjavík situr í stjórn Máls og menningar, fyrirtækisins sem þáði fjárstyrki af fjöldamorðingja. Er það einhver huggun að fjöldamorðinginn hét Stalín en ekki Hitler?