Mánudagur 28. september 1998

271. tbl. 2. árg.

Í gærkvöldi var Ríkissjónvarpið svo stálheppið að fá til sín í beina útsendingu sjálfan sigurvegara þýsku kosninganna og væntanlegan kanslara, Sighvat Björgvinsson. Eins og vænta mátti var Sighvatur klökkur og þakklátur þýskum kjósendum sínum og kom fram hjá Sighvati að „íslenskir jafnaðarmenn“ vonuðust til að sigrar Sighvatar í Þýskalandi nú og á Bretlandi í fyrra hefðu áhrif á íslenska kjósendur. Og skyldi enginn áfellast íslenska krata fyrir að vonast til að ná einhverjum árangri út á hugsanlega verðleika Antony Blair og Gerhard Schroeders. Það er að minnsta kosti ljóst að ekki ná þeir árangri út á sína eigin.

Þegar Kanzler Björgvinsson og fréttamaðurinn höfðu rætt sigur Sighvatar nægilega hófu þeir að fjalla um nýafstaðið „flokksþing Alþýðuflokksins“ og mátti vart á milli sjá hvor þeirra var hrifnari. Einkanlega höfðu þeir mörg orð um hve Alþýðuflokkurinn talaði mjög um mennta- og menningarmál. Sighvatur sagði sérstaklega gott hjá flokksþinginu að hafa farið „upp í Háskóla“ á fund Háskólarektors og spurt hann hvað hann leggði áherslu á. Sighvatur lagði mikla áherslu á að þetta hefði enginn annar flokkur gert. Það er alveg rétt hjá Sighvati að engum hefur dottið í hug að fara með t.d. landsfund Sjálfstæðisflokksins, 1500 manna samkomu, á fund á skrifstofu Háskólarektors. Undir forystu Sighvatar Björgvinssonar en hins vegar svo komið fyrir Alþýðflokknum að hægðarleikur er að fara með flokksþing hans á fund hvers sem er. Ef svo heldur fram sem horfir er stutt í að Alþýðuflokkurinn fari að geta rætt við menn – undir fjögur augu.

Á meðan vinstri menn hérlendis vinna að eigin sögn kosningar í öðrum löndum ætlar ruglið á vinstri kanti íslenskra stjórnmála engan enda að taka. Fram hefur komið að brot úr Alþýðuflokki, Þjóðvaka, Kvennalista og Alþýðubandalagi hyggjast sameinast í eitt vinstra framboð – einhvers konar brotabrot. Aðrir vinstri menn hafa upplýst að þeir hyggist bjóða fram eitthvað sem verður vinstra megin við brotabrotið. Að því stendur félag nokkuð sem kallast Stefna og líklega verða þar  nokkrir gamlir þingmenn sem hafa verið lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Og nú hefur bæst við yfirlýsing um framboð Sósíalistafélagsins (sem mun vera félagsskapur gamalla eldrauðra Allaballa). Það framboð virðist ætla að reyna að staðsetja sig til vinstri við bæði brotabrotið og vinstri mennina, þannig að athyglisvert verður að sjá þessa frambjóðendur alla hnoðast hver ofan á öðrum lengst úti í vinstra horninu.

En þegar Sverrir Hermannsson og félagi hans Bárður Halldórsson bætast í framboðsflóruna má svo sem segja að kjósendur geti skemmt sér yfir sprellinu í næstu kosningum. Það þarf enginn spaugstofu þegar fréttamenn sinna því jafn vel og raun ber vitni að tala við fulltrúa þessara framboða.