Á rás eitt ríkisútvarpsins er á dagskrá á laugardagsmorgnum þáttur sem ber nafnið Í vikulokin. Stjórnandi þáttarins, Þorfinnur Ómarsson kvikmyndasjóðsstjóri, hefur undanfarna tvo laugardaga lagt fyrir viðmælendur sína að segja álit sitt á því sem Þorfinnur kallar (fjölmiðla)fárið í kringum Clinton Bandaríkjaforseta. Skemmst er frá því að segja að allir viðmælendurnir með tölu hafa keppst við að segja hversu ógeðsleg þeim þyki rannsókn málsins, hve leiðir þeir séu orðnir á umfjöllun fjölmiðla um málið, hversu lágt þeim þyki repúblikanar leggjast, hversu vondur Ken Starr sé og hversu blessunarlega lausir hinir siðmenntuðu Evrópubúar eru við hnýsni í einkamál stjórnmálamanna sinna. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að viðmælendurnir hafa verið fólk á borð við Ólínu Þorvarðardóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur og þá Ólafa Þorn bæði Harðarson og Stephensen. Sumir viðmælendanna vildu meina að lýðræðinu stafaði hætta af rannsókn Ken Star, að mannréttindi væru brotin á Clinton með rannsókninni og klykktu svo út með orðtakinu kynferðislegur McCarthyismi sem nýtur nú sívaxandi vinsælda.
Mál sem þetta er auðvitað kjörið fyrir evrópusinna sem geta upphafið sjálfa sig og sína siðmenntuðu Evrópu með því að benda á barbarana í nýja heiminum. Þetta er líka kjörið tækifæri fyrir vinstrimenn til að benda á hversu illa innrættir repúblikanar séu og til að kenna í brjósti um Hillary og Bill að ógleymdri Chelsea. Í raun má segja að rannsókn Starr (lesist þingsins) og umfjöllun fjölmiðla um hana hafi verið hvalreki fyrir þá sem telja telja að Bandaríkin séu mistök svo vitnað sé í Sigmund Freud.
Í þessu samhengi er athyglisvert að líta aftur til ársins 1992 þegar Clinton háði fyrstu kosningabaráttu sína til embættis Bandaríkjaforseta. Eitt af slagorðum hans þá var Two for one með vísan til þess að kysu menn Clinton þá fylgdi Hillary með frítt og að hún yrði sko aldeilis engin Barbara Bush, eins og síðar kom reyndar á daginn. Ennfremur lagði Clinton áherslu á það í kosningabaráttu sinni að hann myndi veita Bandaríkjamönnum moral leadership. Í stuttu máli þá notaði Clinton einkalíf sitt, æsku og uppeldi og hjónaband óspart í kosningabaráttunni og að henni lokinni. Það er því ekkert við það að athuga að fjölmiðlar sýni einkalífi hans áhuga, þegar hann sjálfur hefur selt það gegn atkvæðum kjósenda. Það er enn síður nokkuð við það að athuga að fjölmiðlar kafi í einkalíf stjórnmálamanns sem hefur það að stefnumiði að enginn maður hafi einkalíf. Þeir fjölmiðlar sem takmarkað hafa fréttaflutning af rannsókn Starr rísa einfaldlega ekki undir nafni.
Í lokin er rétt að rifja upp ummæli hinnar hámenntuðu Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, en hún vildi taka það skýrt fram í útvarpsviðtali að samskipti Bill Clinton við Monicu Lewinsky féllu ekki undir hugtakið kynferðisleg áreitni þar sem í hlut ættu tveir fullveðja einstaklingar sem tækju þátt af fúsum og frjálsum vilja (samt er hún á móti nektardansstöðum!). Reyndar sver svar hennar sig í ætt við viðbrögð skoðanasystra hennar í Bandaríkjunum við málum Paula Jones og Monica Lewinsky. Patricia Ireland, formaður NOW (National Organisation of Women) hefur til dæmis reynt að halda því fram að meint breytni Clinton gagnvart Paula Jones væri ekki sambærileg við meinta breytni Clarence Thomas gagnvart Anita Hill. Lesendum til glöggvunar skal bent á afbragðs góða grein í ágúst og septemberhefti Reason eftir Cathy Young.