Undanfarin ár hafa kjaftablöð og tímarit öðru hverju birt nokkurs konar úttektir á smekksatriðum. Birtir blaðamaður þá lista yfir fólk sem á að hafa tiltekna kosti í fari sínu, raðar þeim yfirleitt í númeraröð. Oftast er þess getið með smáu letri neðst í textanum að álitsgjafar hafi verið hinir og þessir sem svo eru taldir upp. Þessir álitsgjafar virðast oft valdir eftir sömu aðferð og þáttastjórnendur ríkisfjölmiðlana nota stundum til að sanna hlutleysi sitt: Tíu vinstri menn og svo Hannes Hólmsteinn Gissurarson. (Undantekning frá þessu var reyndar í nýlegu tölublaði Mannlífs þar sem Hannesi var einum treyst til að skrifa um áhrifamestu Íslendinga aldarinnar.) Niðurstaða úttektar eins og hér er lýst verður svo gjarnan á þá leið að Össur Skarphéðinsson sé gáfaðasti, skemmtilegasti, fyndnasti, sniðugasti, vitrasti, hógværasti, frábærasti og besti þingmaður Íslandssögunnar, kannski að Jóni Baldvini Hannibalssyni undanskildum.
Nú má fólk ekki misskilja Vefþjóðviljann á þann veg, að hann telji lesefni sem þetta á nokkurn hátt verra en broslegt. Einungis er verið að fjalla um smekksatriði og um þau verður ekki deilt. Engu að síður glotta menn oft í kampinn þegar kunningsskapur virðist bera smekkinn ofurliði. Í laugardagsblaði Dags-Tímans um síðustu helgi er upplýst hverjir eru mestu stílistar Íslands á þessari öld. Er það meira að segja kynnt á forsíðu með orðunum Bestu stílistarnir – vandlega valdir. Inni í blaðinu er svo ekki einungis greint frá því hverjir eru 10 mestu stílistarnir, lesendum til fróðleiks er þeim raðað niður, eitt til tíu. Ekki kemur á óvart að Halldór Laxness var bestur og líklega var ekki hægt að búast við að annar en Þórbergur Þórðarson yrði númer tvö. Annað á listanum sætir ef til vill meiri tíðindum. Þannig er nú gert heyrinkunnugt að Thor Vilhjálmsson er 4. mesti stílisti aldarinnar og litlu lakari sé sonur hans, Guðmundur Andri. Þar sem ekki er víst að hið ágæta blað, Dagur-Tíminn, sé öllum lesendum Vefþjóðviljans tiltækt viljum við, í ljósi mikilvægis upplýsinganna, láta þess getið að aðrir meðal tíu bestu voru Sigurður Nordal, Guðbergur Bergsson, Málfríður Einarsdóttir, Svava Jakobsdóttir, Gyrðir Elíasson og Vilmundur Jónsson.
Virðist hér hafa verið, eins og reyndar tekið er fram á forsíðu blaðsins, vandlega valið. Er gott til þess að vita að niðurstöður dómbærustu manna, vaskrar sveitar smekkvísra manna, liggi nú fyrir. Þá er vonandi ekki lengur hætta á að mönnum verði það á að dást um of að öðrum stílistum. Menn, sem til dæmis höfðu áður ekki áttað sig á hversu Fjallkirkjan stendur Minni kátu angist langt að baki, hefðu kannski nefnt Gunnar Gunnarsson á undan Guðmundi Andra Thorssyni. Þeir sem ekki höfðu gert sér grein fyrir því að Thor Vilhjámsson er 4. besti stílisti aldarinnar hefðu jafnvel gert þann feil að nefna Tómas Guðmundsson í sömu andrá og Thor. Þessi fróðlegi listi forðar mönnum vonandi frá margri slíkri villu. Helgi Hálfdanarson sem þó þýðir gervallan Shakespeare frá orði til orðs, við nokkurn hróður að því er álitið var, jafnast að sjálfsögðu ekki á við þá sem hér voru nefndir. Til marks um snilld Vilmundar landlæknis Jónssonar voru ekki síst nefndar greinargerðir hans með lagafrumvörpum (synd að ekki nema ein fái inni í tveggja binda ritsafni hans sem kom út fyrir 13 árum (þar eru hins vegar nokkrar ræður og greinar sem hann ritar utan þings)) og hafa þær greinargerðir verið hinar merkustu, að minnsta kosti all betri en predikanir og greinar Sigurbjörns Einarssonar biskups, sem margir héldu að væri mælskasti predikari landsins frá dögum Jóns Vídalíns. Fleiri kunnir rithöfundar komast ekki á topp-tíu. Jóhann Jónsson, Davíð Stefánsson, Magnús Ásgeirsson, Örn Arnarson, Jóhannes úr Kötlum og Steinn Steinarr voru að sjálfsögðu bara ljóðskáld og þar af leiðandi koma þeir líklega ekki til greina þegar valdir eru stílistar aldarinnar. Rithöfundar eins og Einar H. Kvaran, Jóhann Sigurjónsson, Guðmundur G. Hagalín og Kristmann Guðmundsson svo nokkrir séu nefndir af látnum höfundum jafnast ekki á við þá tíu sem bestir eru. Af núlifandi höfundum má nefna menn eins og Einar Má Guðmundsson og Þórarin Eldjárn sem standa þessum tíu að baki. Dæmin eru líklega endalaus; prófessor Jón Helgason hafði auðvitað engan stíl á við Thor Vilhjálmsson.
Í blaðinu eru birt nokkur ummæli dómaranna um höfundana. Um Þórberg Þórðarson segir einn: Stílsnillingur aldar og eilífðar. Hef aldrei rekist á setningu eftir Þórberg sem ekki er fullkomin. Nei. Ekki nokkur setning sem ekki er fullkomin. Þó Halldór Laxness hefði setið dag og nótt yfir 3000 blaðsíðna ritsafni Þórbergs hefði hann ekkert fundið sem hann gæti bætt á nokkurn hátt. Ekki orð.
Nú finnst lesanda ef til vill að Vefþjóðviljinn hafi eytt miklu rými af litlu tilefni. Vefþjóðviljinn ítrekar að hann áttar sig á því, að úttekt eins og sú sem Dagur-Tíminn stóð fyrir hlýtur einkum að vera til gamans gerð. Hún er vitaskuld ekki annað en þverskurður af smekk tiltekinna einstaklinga sem að sjálfsögðu mega meta stíl og lesmál eins og þeim hentar best. – Vefþjóðviljanum þóttu niðurstöðurnar einungis dálítið skemmtilegar og datt í hug að leyfa lesendum að njóta þeirra með sér!