Mánudagur 31. ágúst 1998

243. tbl. 2. árg.

Það er ekki hægt að segja að ríkisstjórnin hafi átt góð útspil síðustu daga. Gullið tækifæri til að losa ríkið út úr bankarekstri – að verulegu leyti að minnsta kosti – er farið í súginn í bili. Bankamálaráðherrann Finnur Ingólfsson býður landsmönnum upp á þá útskýringu að betra sé að ávaxta fé þeirra með því að ríkið reki bankana enn um sinn, því það sé betur til þess fallið að treysta rekstur þeirra en einkaaðilar. Þetta er auðvitað einhvers konar eftiráskýring. Eiginleg ástæða er líklega frekar hræðsla við afturhaldssama stuðningsmenn. Þetta hik nú er þó undarlegt í ljósi þess að lítil sem engin mótspyrna var við söluna, enda undirbúningurinn búinn að vera langur og landsmenn löngu búnir að átta sig á nauðsyn þess að breyta til á fjármálamarkaðnum.

Hún er skrítin tík pólitíkin er stundum sagt þegar skynsamlegar skýringar á því sem fram fer á stjórnmálasviðinu skortir. Það á vissulega við í bankamálinu nú, en framsóknarmenn ákváðu þó að staðfesta þetta orðtak frekar með þeirri snjöllu „lausn” á ráðherravanda flokksins að láta Guðmund Bjarnason gegna áfram embætti ráðherra fram að kosningum þótt þeir séu nýbúnir að ráða hann til að stýra Íbúðalánasjóði. Að því loknu kemur félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, fram í sjónvarpi og segist ekki sjá að verið sé að taka hagsmuni Framsóknarflokksins fram yfir hagsmuni Íbúðarlánasjóðs þótt sjóðurinn verði hálf-stjórnlaus fyrstu mánuðina. Nei, auðvitað sér hann það ekki.

Guðný Guðbjörnsdóttir, þingmaður Kvennalistans, lýsti því yfir síðastliðið miðvikudagskvöld að forysta Alþýðuflokks og Alþýðubandalag hefðu ekki sýnt full heilindi í viðræðum um sameiginlegt framboð félagshyggjuaflanna. Þeir hefðu átt í viðræðum sín á milli til hliðar við almennu viðræðurnar og þannig farið á bak við Kvennalistann. Ljóst er að þessi yfirlýsing setur viðræður flokkanna í nýtt ljós og hlýtur að hafa veruleg áhrif á framgang þessara mála. Þessir atburðir draga nú heldur úr líkum þess að af sameiginlegu framboði verði, og er sennilegasta niðurstaðan sú, að í næstu kosningum verði þrjú ef ekki fleiri félagshyggjuframboð á ferðinni, en hugsanlega verði einhver tilfærsla á einstaklingum milli þessara flokka Hitt er svo annað mál, að Guðný og þær Kvennalistakonur ættu ekki að þurfa að láta koma sér á óvart að forystumenn A-flokkanna hafi
farið á bak við þær. Forystumenn þessara flokka eru sérfræðingar í laumuspili, baktjaldamakki og rýtingsstungum í bak hvers annars. Saga bæði Alþýðuflokks og Alþýðubandalags er mörkuð innanflokkserjum, klofningi og undirmálum hvers konar, og ekkert bendir til þess að breyting verði á því í nánustu framtíð. Kvennalistakonur eru ekki heldur neinir hvítþvegnir englar í þessum efnum og er skemmst að minnast þess hvernig nokkrar fyrrum forystukonur í samtökunum hafa beinlínis
verið hraktar úr þeim á umliðnum árum.