Laugardagur 29. ágúst 1998

241. tbl. 2. árg.

Svo virðist sem í fyrsta skipti í langan tíma fari hagsmunir Íslendinga og Rússa nú saman og geti hvor aðili orðið hinum að nokkru gagni. Sko.

Þeir eru í bölvuðum vandræðum með Yeltsin og vilja losna við hann úr forsetaembætti en vita ekki hvað þeir eiga við hann að gera. Við, á hinn bóginn, erum líka í vandræðum; okkur bráðvantar  mann til að stýra þessum Íbúðarlánasjóði.

Morgunblaðið birti á þriðjudaginn afar sérstæða afsökunarbeiðni á áberandi stað á bls. 2. Lesendur Morgunblaðsins vita, að ef blaðið á annað borð brýtur odd af oflæti sínu í málum af þessu tagi eru leiðréttingar og afsökunarbeiðnir einungis birtar með lítt áberandi hætti aftarlega í blaðinu. Það mætti því ætla að um einhver stórmistök hafi verið að ræða.

En hvert var tilefni hinna miklu viðbragða blaðsins nú? Jú, auglýsingadeild blaðsins hafði móttekið auglýsingu frá heildsala, sem vildi vekja athygli lesenda á því, að meira áfengismagn væri í litlum bjór eða venjulegu rauðvínsglasi annars vegar en í einni einfaldri ginblöndu hins vegar. Nefnd voru nöfn tegundanna til að sýna að samanburðurinn væri raunhæfur og raunverulegur, en ekki tilbúningur einn. Ekki fólst í auglýsingunni nein hvatning til lesenda um að drekka áfengi, hvorki þessar tegundir né aðrar. Einungis var komið á framfæri framangreindum upplýsingum.

Í afsökunarbeiðni Morgunblaðsins kom ekki fram neinn rökstuðningur eða skýring á því hvers vegna verið væri að biðjast afsökunar á birtingu auglýsingarinnar. Aðeins var sagt að um mistök hafi verið að ræða. Lesendur gætu því t.d. túlkað það svo, að blaðið hafi birt auglýsinguna í trássi við óskir heildsalans. Hafði heildsalinn kannski óskað eftir birtingu og síðan dregið hana til baka? Hafði einhver óviðkomandi aðili komið með auglýsinguna til Morgunblaðsins og farið fram á birtingu án samráðs við heildsalann? Tók Morgunblaðið sjálft upp á því að birta þessa auglýsingu án samráðs við heildsalann?

Þessar skýringar eru auðvitað ósennilegar, þótt hinn fáorði texti í afsökunarbeiðni Morgunblaðsins útiloki þær ekki. Auðvitað er miklu sennilegra að forsvarsmenn Morgunblaðsins hafi fengið hörð viðbrögð við birtingunni frá þeim hópi manna í þjóðfélaginu, sem hefur atvinnu af því að hafa vit fyrir öðrum í sambandi við áfengismál. Sá hópur hefur hamast gegn öllu fjölmiðlaefni, sem hann telur fela í sér auglýsingar á áfengi, og hefur verið iðinn við að kæra slíkar meintar auglýsingar til lögregluyfirvalda. Er í því sambandi byggt á því að í áfengislögum er kveðið á um bann við birtingu auglýsinga á áfengi eða einstökum áfengistegundum. Má ímynda sér, að forsvarsmenn Morgunblaðsins hafi á þessum forsendum talið birtingu fyrrgreindrar auglýsingar mistök.

Sé þetta viðhorf forsvarsmanna Morgunblaðsins hefði verið forvitnilegt að láta það koma fram í afsökunarbeiðninni. Jafnframt hefði verið forvitnilegt að sjá, hvernig forvarsmenn blaðsins hefðu rökstutt það að þessi auglýsing, þar sem veittar voru upplýsingar um mismunandi styrkleika ólíkra gerða áfengis, fæli í sér meiri hvatningu til áfengisneyslu heldur en til dæmis vikulegar greinar Steingríms Sigurgeirssonar, blaðamanns, þar sem hann kynnir nýjar víntegundir og leggur mat á gæði þeirra. Ekki skal hér amast við fróðlegum og skemmtilegum greinum Steingríms, en ekki verður fram hjá því litið að í þeim felst að jafnaði mun meiri auglýsing fyrir þær víntegundir, sem hann fjallar um, heldur en í auglýsingunni margumræddu.

Við þetta má svo að lokum bæta því, að miðað við orðalag áfengislaganna er alls óvíst að umrædd auglýsing teldist ólögmæt áfengisauglýsing. Á það kann að reyna fyrir dómstólum, en ljóst er að dómstólar þurfa að teygja sig nokkuð langt til að komast að þeirri niðurstöðu að í auglýsingunni hafi lög verið brotin. Þá er einnig fróðlegt að rifja upp, að snemma á síðasta ári komst héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu, að umfjöllun í tímariti, sem vissulega fól í sér söluhvetjandi umfjöllun um tiltekna tegund áfengis, væri heimil, enda fæli bann við henni í sér brot á tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þessum dómi treysti ákæruvaldið sér ekki til að áfrýja til Hæstaréttar og síðan þetta gerðist hafa lögregluyfirvöld verið afar treg til að ákæra vegna sambærilegra mála. Eitt dómsmál mun hins vegar hafa verið höfðað á þessu ári út af meintu broti af þessu tagi, og verður fróðlegt að sjá hvort mat dómstóla á tjáningarfrelsinu hefur tekið einhverjum breytingum frá því í fyrra.

Það má því ljóst vera, að mikill vafi ríkir um það hvort auglýsingin fræga hafi falið í sér lögbrot. Sterk rök mæla gegn því sjónarmiði og fyrirfram má telja afar ólíklegt að auglýsandinn verði dæmdur fyrir þessa athöfn. Morgunblaðinu er hins vegar að sjálfsögðu heimilt að stunda þá sjálfsritskoðun sem því sýnist, en lesendur og væntanlegir auglýsendur hljóta hins vegar að eiga rétt á því að vita við hvaða forsendur blaðið miðar í því sambandi.