Föstudagur 28. ágúst 1998

240. tbl. 2. árg.

Skattayfirvöld undirbúa nú einföldun skattframtals einstaklinga. Ráðgert er að fólk muni geta fengið skattframtalið sent til sín útfyllt og þurfi ekki að skila því inn nema það geri einhverjar breytingar á því. Ástæðan fyrir því að þetta er unnt er vitaskuld sú að hið opinbera hefur aðgang að mjög viðamiklum upplýsingum um fjármál landsmanna. Þessum upplýsingum hefur verið safnað saman í nokkuð sem líklega mætti kalla miðlægan gagnagrunn, svo notaður sé vinsæll frasi úr umræðu um heilbrigðismál.

Eins og umræðan um gagnagrunn á heilbrigðissviði hefur sýnt telja menn almennt ástæðu til að farið sé afar varlega í söfnun heilbrigðisupplýsinga um einstaklinga og að gæta þurfi sérlega vel að þeim, sé þeim safnað saman á einn stað. Þetta er eðlilegt því fólk á rétt á að fá að hafa einkamál sín í friði fyrir öðrum. Í ljósi þessara sjónarmiða um heilbrigðisupplýsingar skýtur meðferðin á upplýsingum um fjármál manna skökku við. Það er ekki aðeins svo að hið opinbera geti nálgast flest sem máli skiptir um fjárhag manna þegar því hentar, heldur leyfir það sér að láta ýmsar upplýsingar um persónuleg fjármál manna liggja frammi tiltekinn tíma árs í skattskrám hjá skattstjóraembættum. Hvernig ætli fólki yrði um ef nágrannar þess gætu svalað forvitni sinni  um hvaða kvillar hrjá það með því að fara einu sinni á ári til landlæknis og fletta í sjúkraskrám? Þá gætu heilbrigðisyfirvöld líka gefið út sérstaka lista yfir mestu pestargemlingana rétt eins og skattyfirvöld gefa út   „hákarlalista“ yfir mestu skattgreiðendur.

Stuðningur Sambands ungra framsóknarmanna við að ákveðinn þingmaður verði ráðherra í stað Guðmundar Bjarnasonar er einkum byggður á þrennu: Kynferði þingmannsins, aldri hans og lögheimili. Um leið segir SUF okkur væntanlega hvernig flokkur Framsóknarflokkurinn hefur verið fram að þessu en nær allir þingmenn og ráðherrar flokksins fram á þennan dag hafa verið miðaldra karlmenn utan af landi.

En þegar rökfesta SUF er skoðuð kemur ekki á óvart að innan SUF leynast einstaklingar sem kunna að færa svipuð rök fyrir máli sínu Þannig segir einn stjórnarmaður í SUF í blaðaviðtali í gær um það að systir Sivjar Friðleifsdóttur situr einnig í stjórninni sem ályktaði um ráðherramálin: „Það vill svo til að hún er systir systur sinnar.“