Eins og menn vita verja opinberir aðilar miklum upphæðum til menningarmála. Rithöfundar eru fjölmargir á launum hjá hinu opinbera (sumir virðast reyndar einkum nota tímann í skrifa greinar um sameiningu vinstri manna) og myndlistarmenn og tónskáld eru fjölmörg á starfslaunum hjá skattgreiðendum. Kvikmyndir eru gerðar fyrir tugmilljóna skattfé og áfram mætti telja. (Engum dettur í hug að endurgreiða styrkina ef bók selst vel eða mynd malar gull). Allt er þetta sagt vera til þess að menning fái þrifist í fámennu landi, þeir sem gagnrýna þetta fyrirkomulag eru á móti menningunni, hugsa bara um budduna og skilja ekki raunveruleg verðmæti. Ekkert bendir til þess að menn efist um réttmæti heimtufrekjunnar og yfirlætisins sem felst í því t.d. að samtök listamanna telja félagsmenn sína slíka listamenn að skattborgurum sé skylt að verðlauna þá með fjárframlögum. Að telja væntanleg ógerð verk þeirra slíka snilld, að ef ríkið greiði höfundinum ekki fyrir vinnuna fyrirfram, muni landið smám saman breytast í eyðimörk. Stjórnmálamenn gera síðan lítið til að taka á þessum málum. Í þeirra hópi eru reyndar menn sem telja að mun harðar megi sækja að skattgreiðendum í þessu efni; að minnsta kosti eru til stjórnmálamenn sem upphátt ræða hugmyndir um að eyða eins og fjögur þúsund milljónum króna í tónlistarhús. Og ekki hvarflar að þeim að lækka aðrar greiðslur til menningarmála. Skýringin er ef til vill sú, að menningargeirinn er áhrifamikill þrýstihópur, hörðustu styrkþegar í rithöfundastétt eru kannski iðnir pistlahöfundar á vinstri útvarpsstöðvum eða dagblöðum og svo mætti áfram telja.
Mörgum listamönnum þykir sjaldan nóg fyrir sig gert og oft fullyrða þeir, gjarnan með hneykslunartóni, að opinber útgjöld til menningarmála verði að vera mun meiri, ráðamenn hafi alls ekki nægan skilning á menningarmálum. Sjaldgæfara er hins vegar að lesa efasemdir um opinberan stuðning við listamenn.
Á dögunum kom út ritið Listapósturinn, 8. tbl. 3. árg. Þar er nokkuð vikið að opinberum aðilum í listaheiminum, ekki er verið að gagnrýna opinberan stuðning sem slíkan en örfá dæmi nefnd um það sem gert hefur verið fyrir hönd skattgreiðenda.Greinin sem hér um ræðir hefst á orðunum: Undanfarin ár hafa sum opinber söfn legið undir, að margra dómi, réttmætri gagnrýni fyrir að setja upp lélegar og leiðinlegar sýningar. Einni slíkri skelfingarsýningu lýkur í Listasafninu á Akureyri 22. ágúst. Á þessari sýningu voru verk þriggja listamanna, Kristjáns Guðmundssonar, Austurríkismannsins Franz Graf og Skotans Alans Johnston. Listapósturinn er ekki ánægður með sýninguna: Fáeinar teikningar eftir hvern listamannanna og svo járnabútar eftir Íslendinginn. Í sýningarskrá munu þeir allir hafa verið kynntir sem þekktir listamenn en Listapósturinn er ekki sannfærður um að svo sé og segir að það sé illa gert gagnvart almenningi að reyna að telja fólki trú um að um sé að ræða þekkta listamenn. Þekkta, hvar og af hverjum? Kristján Guðmundsson þótti einu sinni efnilegur listamaður, en það dugir ekki endalaust. Honum hefur jafnvel tekist að selja Listasafni Íslands ótrúlegustu nytjahluti sem list, hluti á borð við strauborð og vatnsrör. Um hina vitum við ekkert.
Listapósturinn er ekki einungis sérstaklega óánægður með flest sem tengist þessari sýningu. Greininni lýkur á þessum orðum: Fátt er svo með öllu illt. Þegar út var komið, rifjaðist það upp fyrir skrifara að ekki var að sjá að Listasafn Íslands hefði fest kaup á enn einu verkinu eftir Kristján þennan Guðmundsson. Það var mikil mildi. Hins vegar festi safnið nýlega kaup á steinaröð eftir Sigurð bróður hans á sýningu í Reykjavík. Verkið er reyndar alls ekki afleitt, en varla stórmerkilegt. Verðið var litlar 700 þúsund. Listasafn Reykjavíkur gat varla verið eftirbátur Listasafns Íslands og keypti á sömu sýningu tilhöggvið steinverk, ekki samt eins veglegt. Aðeins var um einn stein að ræða, enda var verðið ekki nema rúmar 600 þúsund krónur. Lítill fugl hvíslaði því að skrifara að verkin væru samt líklega ekki unnin af listamanninum, þar sem hann kynni ekki að höggva í stein. Hvað um það, ánægjulegt er að söfnin hafi yfir það miklu fjármagni að ráða að það geri slík kaup möguleg. Vonandi fylgja steinaröðinni leiðbeiningar um það hvernig á að hlaða henni upp, svo að ekki þurfi að ónáða listamanninn í hvert sinn sem verkið verður sett upp, gestum safnsins til ánægju og yndisauka.