Mánudagur 24. ágúst 1998

236. tbl. 2. árg.

Microsoft stendur sem kunnugt er í stórræðum þessi misserin. Þar er ekki aðeins um það að ræða að fyrirtækið stundi forritasmíð af krafti heldur er það einnig að verja hendur sínar gagnvart dómsmálaráðuneytinu og fleiri aðilum í Bandaríkjunum. Í samantekt sem kölluð er Policy Spotlight á heimasíðu Free-Market eru tekin saman gögn og ýmis sjónarmið um þetta mál á aðgengilegan hátt og fjallað um helstu persónur og leikendur í farsanum.

Í kynningu á samantektinni segir m.a. að málið snúist ekki aðeins um það hvort Microsoft býður upp á bestu forritin eða hvort fyrirtækið græðir of mikið. Það snúist um reglusetningu stjórnvalda um efnahagslífið og um það hvort neytendur eigi sjálfir að fá að velja sér hvaða forrit þeir kaupa eða hvort sú ákvörðun skuli vera í höndum lögmanna, embættismanna og stjórnmálamanna.

Það virðist sjaldan hvarfla að þeim sem veljast til pólitískra embætta að hinu opinbera séu einhver eðlileg takmörk sett í því sem það tekur sér fyrir hendur. Það lítur út fyrir að nóg sé að inn á borð til þessa fólks komi sniðug hugmynd, þ.e. hugmynd sem líkleg er til vinsælda, til að henni sé hrint í framkvæmd. Þegar tekin er afstaða til hugmyndarinnar lítur ekki út fyrir að hún sé tekin út frá einhverju grundvallarsjónarmiði um takmörk á verksviði hins opinbera. Þannig hefur hið opinbera til dæmis tekið að sér að segja fullorðnu fólki fyrir verkum um hvaða bíómyndir það skuli ekki horfa á, það hefur séð ástæðu til að skikka menn til að spenna á sig öryggisbelti og það sendir menn heim af skemmtistöðum þegar því þykir tímabært að þeir fari að halla sér.

En það hefur einnig færst í vöxt að opinberir aðilar taki að sér að hafa ofanaf fyrir fólki. Og fáum virðist nú orðið finnast það sérkennilegt að hið opinbera verji skattfé til að gleðja skattgreiðendur með alls kyns uppákomum. Eitt dæmi um þetta er hin svokallaða menningarnótt Reykjavíkurborgar sem haldin var nú um helgina í þriðja sinn. Ekki skal því á móti mælt hér að slík nótt er hin skemmtilegasta fyrir flesta viðstadda, en þar með er ekki sagt að það sé í verkahring sveitarfélags að leggja út í kostnað til að koma þessu á. Það er hreinlega ekki sjálfgefið að hið opinbera eigi alltaf að vera allt í öllu, enda hlýtur það, auk þess að vera kostnaðarsamt, að hafa þau áhrif að draga úr einkaframtaki, þar sem svigrúm einkaaðilanna minnkar. Það er eins með menningarnóttina og aðrar opinberar framkvæmdir, opinberi aðilinn bendir á að hefði hann ekki tekið málið í sínar hendur hefði engin menningarnótt verið. Það sem gleymist aftur á móti er, að héldi hið opinbera að sér höndum væru færin fleiri fyrir einkaaðilana, en við munum aldrei vita af hverju við misstum vegna aðgerða hins opinbera.