Sumir telja æskilegt að ríkið jafni kjör manna í þeim tilgangi að bæta kjör þeirra sem lakast eru staddir. Margir ganga svo að því sem vísu að ríkið nái þessu markmiði. Engu að síður hafa menn æði mörg dæmi um að ríkinu takist ekki alltof vel upp við verkefni sem það hefur á sinni könnu. Af hverju ætti ríkinu því að takast þetta ætlunarverk?
Margt bendir nefnilega til þess að tekjujöfnun ríkisins gagnist illa þeim sem búa við lökust kjörin og sé ekki helst á kostnað þeirra sem búa við best efni. Skattheimta lendir einkum á venjulegu launafólki sem hefur ekki efni á að ráða til sín menn sem kunna á glufur í skattkerfinu. Það er meðaljóninn sem tilheyrir engum sérstökum þrýstihópi (t.d. sjómönnum með sérstakan skattaafslátt) sem er auðveldast að skattleggja. Maðurinn sem fær venjulegan launatékka um hver mánaðamót og kaupir sjálfur bensín á bílinn sinn og vínið í fertugsafmæli konu sinnar.
En hverjir njóta þess svo að meðaljóninn er skattlagður? Hverjir njóta tekjujöfnunarinnar? Auðvitað verða best skipulögðu og háværustu þrýstihóparnir ofan á í baráttunni um framlög frá ríkinu. Hinir háværu frekar en hinir fátæku. Við þetta bætist svo að hluti af meintri aðstoð við hina efnaminni er með ókeypis menntun og heilsugæslu og skilyrtum styrkjum eins og barnabótum og vaxtabótum.. Með öðrum orðum er ákveðið fyrir fólk hvers það þarfnast. Aðstoðin er því í mörgum tilfellum allt önnur en fólk þarf mest á að halda og því minna virði fyrir vikið. Krónan sem er lögð í ókeypis nám í t.d. mannfræði og tannlækningum kemur ekki að miklum notum fyrir verkafólk með gagnfræðpróf. Skilyrtar og tekjutengdar bætur letja menn einnig til að bæta kjör sín upp á eigin spýtur.
Tekjujöfnun hefur lengi þótt pottþétt afsökun fyrir auknum ríkisumsvifum. Vafalaust mun það breytast á næstu árum.
Eins og Bertrand de Jouvenel orðar það í bók sinni The Ethics of Redistribution: Því nánar sem málið er skoðað því betur kemur í ljós að tekjujöfnun snýst ekki um að færa tekjur frá ríkum til fátækra heldur vald frá einstaklingunum til ríkisins.