Helgarsprokið 16. ágúst 1998

228. tbl. 2. árg.

Úlfar Þormóðsson heitir maður. Er hann þekktur meðal alþjóðar, meðal annars fyrir ritstörf sín en ekki síður fyrir þátttöku sína í  stjórnmálum. Á stjórnmálaskoðunum Úlfars er að mati Vefþjóðviljans sá galli, að þær eru allt of langt til vinstri, en á karakter hans er þó sá kostur að hann er heill í þeim skoðunum sem hann hefur sett fram og barist fyrir. Þannig hefur Úlfar, sem árum saman hefur barist undir merkjum Alþýðubandalagsins, ætíð haft lítið álit á þeim hópi manna sem hefur nokkurn veginn þá stjórnmálaskoðun eina, að breytt verði um framboðstilhögun vinstri flokkanna. Menn, sem hafa ætíð verið tilbúnir að skipta um pólitíska sannfæringu eftir því sem hefur hentað, hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá Úlfari, og á það ekki síst við um þann fyrrverandi framsóknarmann, frjálslyndramann og Alþýðubandalagsmann sem árum saman hefur verið harðasti hentistefnumaður landsins.

Á föstudaginn síðasta skrifaði Úlfar Þormóðsson grein í Morgunblaðið  og fjallaði þar um fjárhagsmálefni síns gamla flokks, Alþýðubandalagsins. Kom fram hjá Úlfari, að á dögunum hafi formaður flokksins, Margrét Frímannsdóttir, sent flokksmönnum bréf og borið sig aumlega undan fjárhagsstöðunni. Í bréfinu sagði Margrét að við endurskoðun bókhalds  flokksins hafi komið í ljós „að skuldir flokksins voru miklu hærri en menn höfðu áður talið og gert flokknum grein fyrir á landsfundi 1995. Samkvæmt þeim upplýsingum áttu skuldir flokksins að vera á bilinu 33-35 milljónir króna…“ Og Margrét hélt áfram: „Við endurskoðun bókhaldsins kom hins vegar í ljós að skuldirnar voru 52 milljónir króna. Allt eru þetta skuldir sem urðu til á og fyrir árið 1995 og tengjast aðallega kosningum það ár og árið á undan.“
Til upprifjunar má geta þess að á umræddum landsfundi lauk formannsferli �?lafs Ragnars Grímssonar sem var formaður Alþýðubandalagsins um átta ára skeið.

Hér eru á ferð uppljóstranir hjá Margréti sem að minnsta kosti Alþýðubandalagsmönnum hljóta að finnast alvarlegar. Og þegar menn hugsa til þess, hvernig hvein í forystu Alþýðubandalagsins þegar viðskiptaráðherra varð fyrir því á dögunum að lesa upp á Alþingi rangar upplýsingar sem starfsmenn eins af bönkum ríkisins höfðu tekið saman, hljóta menn að spyrja hvort einnig verði krafist til dæmis afsagna þeirra sem hér hafa átt hlut að máli.

Í grein sinni kom Úlfar inn á fleira. Hann spurði meðal annars hvort rétt væri, að �?lafur Ragnar Grímsson og fyrrverandi framkvæmdastjóri „hafi haft nánast óheftan aðgang að sjóðum hreyfingarinnar til einkanota“ og hvort „einn af framkvæmdastjórum flokksins og einn af oddvitum sameiningarferlisins“ hafi „notað ávísanahefti flokksins eins og sitt eigið og bókhaldarar hreyfingarinnar setið löngum stundum við að flokka sundur nótur af veitingahúsum borgarinnar frá rekstrarnótum flokksins“.

Hér eru alvarlegar ásakanir settar fram og verður fróðlegt að fylgjast með þeim svörum sem Úlfar fær. Og hvort sem þessar spurningar Úlfars eru á rökum reistar eða ekki, þá koma upplýsingarnar um réttar skuldir  flokksins og það sem ranglega var haldið fram á landsfundinum 1995, beint frá Margréti Frímannsdóttur sjálfri. Hvernig tekið verður á því máli, segir ef til vill eitthvað um það hvað forysta Alþýðubandalagsins hefur meint með árásum sínum á Finn Ingólfsson í vetur.