Þriðjudagur 18. ágúst 1998

230. tbl. 2. árg.

Dagur birti á laugardaginn viðtal við Ara Trausta Guðmundsson þar sem m.a. er fjallað um að hann hafi á árum áður verið einn af helstu forsprökkum íslenskra róttæklinga á vinstri vængnum. Fram kemur að hann hafi talið og telji enn að Alþýðubandalagið væri of mikill krataflokkur, þannig að hann hafi verið í félögunum Fylkingunni og Einingarsamtökum  kommúnista og talið sig marx-lenínista. Nú er mönnum auðvitað frjálst að hafa þær skoðanir sem þeim sýnist, en í ljósi sögunnar er sérstakt hversu gagnrýnislaust fjölmiðlar taka því þegar menn viðra skoðanir sem þessar. Er hætt við að hljóð heyrðist úr horni ef einhver tæki til við að verja hina tegundina af sósíalisma sem kostað hefur tugi milljóna lífið á þessari öld þ.e. þjóðernissósíalismann, nasismann. Hvað ef Ari Trausti hefði kallað sig Hitlers-Göbbelista?

Lenín, sem sumir virðast halda að rétt sé að hafa í hávegum, beitti ekki beinlínis mannúðlegum eða lýðræðislegum aðferðum við að hrifsa völdin í Rússlandi. Þvert á móti stofnaði hann fjölmennar sveitir manna, leynilegar og opinberar, til að ná völdum og halda þeim í skjóli ofbeldis. �?gnarstjórn eins og sú sem Lenín kom á og ríkti í rúma sjö áratugi í Sovétríkjunum var ekki bara misheppnuð tilraun velviljaðra hugsjónamannna. Hún var þvert á móti óhjákvæmileg afleiðing þeirrar tilraunar að koma stjórnmálaskoðunum  róttækra vinstri manna í framkvæmd. Þeir sem efast um að róttæk vinstri stefna sé jafn slæm og hér er sagt geta skoðað Safn kommúnismans á netinu og séð sjálfir afleiðingar þessarar stefnu.

Fréttamenn Stöðvar 2 töluðu mikið um það í gærkvöldi að saksóknarinn Kenneth Starr hyggðist nú „spyrja Bill Clinton spjörunum úr“. Ætli það sé óhætt?