Það hlaut að koma að því. Flest sem mannskepnan tekur sér fyrir hendur hefur verið skilgreint hættulegt á einhvern hátt og loks hefur gömlum ógnvaldi verið bætt á listann, en það er ganga. Hvort sem menn arka áfram, rölta um eða jafnvel kjaga eru þeir nú í afar mikilli hættu samkvæmt skýrslu umhverfisverndarhóps sem kallar sig svona hér um bil Landflutningastefnuverkefnið (Surface Transportation Policy Project). Samkvæmt skýrslunni er ganga hættulegasti ferðamátinn þegar tekið er mið af yfirferð ferðalangsins og vandinn mun liggja í skipulagsleysi, dekri við bíla og skorti á fjármunum. Og hver skyldi lausnin vera? Jú, auðvitað vilja skýrsluhöfundar draga úr bílaumferð með tiltækum ráðum og ýta undir annars konar ferðamáta.
Kannast einhver við svona aðgerðir hér á landi. Það skyldi þó ekki vera að þátttaka Reykjavíkurborgar R-listans í átakinu þar sem hvíla mátti bíla í einn dag og almenn óvild borgaryfirvalda í garð bíleigenda minni á öfgar þessara amerísku samtaka. Það er með miklum ólíkindum hversu uppfinningasamir vinstri menn geta orðið í rökstuðningi, framkvæmdum og framkvæmdaleysi þegar þeim finnst ástæða til að hafa vit fyrir fólki, temja það og segja því hvernig því beri að haga sér.