Föstudagur 14. ágúst 1998

226. tbl. 2. árg.

Nú þegar fer að styttast í kosningar til Alþingis má búast við að lýðskrum af ýmsu tagi færist í vöxt. Vafalaust verður „misskiptingin í þjóðfélaginu“ meðal vinsælustu slagara stjórnarandstöðuþingmanna í vetur. Engu að síður hafa ýmsar rannsóknir bent til þess að munur á hæstu og lægstu tekjum sé mun minni hér en erlendis. Vikuritið Vísbending birti í þessari viku súlurit þar sem sjá mátti hversu margfalt hærri laun hæstu launuðu forstjóranna eru en meðallaun verkamanna. Í ljós kemur að í Venesúela eru forstjórar með 84 föld verkamannslaun. Í Bandaríkjunum 24 föld. Í Svíþjóð og Þýskalandi 11 föld en 7 föld á Íslandi. Ísland er með lægsta margfeldið á þessum lista.

Umhverfisverndarsinnar hafa oft sett fram spár um að náttúruauðlindir muni ganga til þurrðar inna svo og svo margra ára. Jafnvel matur átti að klárast samkvæmt spá sprenglærðs prófessors við Stanford sem hann setti fram um 1970. Síðan hafa menn slegist við offramleiðslu á matvælum víða um heim og nú er svo komið að hvergi er hungur nema þar sem stríðsátök (Súdan) eða jafnaðarstefna (Norður-Kórea) herja á menn.

Verð á olíu hefur ekki verið lægra frá árinu 1986. Frá þessu greina flestir fjölmiðlar þessa dagana. Þetta hlýtur þó að koma þessum sömu fjölmiðlum á óvart þar sem þeir flytja reglulega fréttir af því að olíubirgðir heimsins séu senn á þrotum, dugi líklega ekki í nema 30 til 40 ár til viðbótar. Mætti þó ætla að það sem væri við það að klárast og er jafn vinsæll neysluvarningur og olía myndi snarhækka í verði. Það sem ruglar menn í ríminu er hugtakið „olíubirgðir“. Með því er átt við þá olíu sem vitað er um og svarar kostnaði að vinna miðað við núverandi verð og tækni. Um leið og olíuverð hækkar aukast birgðirnar. Hið sama gerist ef ný og betri tækni til olíuvinnslu kemur frá á sjónarsviðið.