Fimmtudagur 13. ágúst 1998

225. tbl. 2. árg.

Enn er deilt um þá ráðstöfun forystu R-listans að láta 5. varamann listans, Pétur Jónsson, setjast í borgarstjórn í stað Hrannars Arnarssonar. Eins og menn muna telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að 1. varamaður hljóti að taka við af aðalmanninum  en ekki hinn fimmti og vísa til sveitarstjórnarlaga því til stuðnings.R-listamenn vilja alls ekki fara hér eftir röð frambjóðenda eins og kjósendum var sýnd hún á kjörseðli heldur goggunarröð vinstri flokkanna eins og hún var ákveðin í bakherbergjum. Eins og gefur að skilja hefur þeim gengið heldur erfiðlega að færa rök að þeim löngunum sínum.

Einn þeirra vinstri manna sem beitt hefur sér í málinu hefur því afráðið að beita öðrum aðferðum. Alfreð Þorsteinsson hefur ítrekað lagt það til umræðunnar að Inga Jóna Þórðardóttir, sem farið hefur fyrir sjálfstæðismönnum í málinu, sé eingöngu að leiða athyglina frá því að hún sé nú oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna þrátt fyrir að hafa ekki náð efsta sæti í prófkjöri flokksins fyrir síðustu kosningar. Það er útilokað að réttmæti þess, að 13. maður á R-listanum komist fyrr í borgarstjórn en 9. maðurinn, geti ráðist af því hvern D-listinn gerir að oddvita sínum. Það, að menn reyni með þessum smekklega hætti að drepa umræðunni á dreif, sýnir hve illa þeir eru staddir.

Ef menn hins vegar vilja ræða gengi manna í prófkjörum og bera það saman við stöðu þeirra í borgarstjórn þá er hægt að gera það. Fyrir síðustu kosningar efndi R-listinn til prófkjörs meðal borgarbúa og voru ekki spöruð stóryrðin um hve prófkjörið væri lýðræðislegt. Nú fengju borgarbúar sjálfir að ráða hvernig framboðslistinn yrði skipaður. Niðurstaða prófkjörsins varð meðal annars á þann veg að þáverandi borgarfulltrúi, Árni Þór Sigurðsson, fékk mun fleiri atkvæði en hinn lýðræðiselskandi áhugamaður um niðurstöður prófkjörs, Alfreð Þorsteinsson. En í krafti þess, að forystumenn vinstri flokkanna höfðu
sín á milli samið um að taka fram fyrir hendurnar á kjósendum, gat Alfreð, sem kjósendur vildu ekki fá, setið brosmildur í sjötta sæti, en Árni Þór, sem kjósendur vildu fá, varð að hrökklast í tíunda sætið.

Þrátt fyrir vilja kjósenda í prófkjörinu situr Alfreð Þorsteinsson því glaðbeittur í borgarstjórn en Árni Þór Sigurðsson er fallinn þar út. Til að kóróna niðurlægingu Árna varð hann svo að láta af formennsku bæði í stjórn Dagvistar barna og Strætisvagna Reykjavíkur og verður hann nú að gera að sér að góðu að gegna starfi aðstoðarkonu borgarstjóra og það í afleysingum!

Í DV á þriðjudag var meðal annars fjallað um ræðumennsku og ræðumenn.  Var þar rætt við Þórlaugu Ágústsdóttur sem síðastliðinn vetur stýrði liði Kvennaskólans í Reykjavík til besta árangurs sem nemendur skólans hafa náð í leiklistarkeppninni „Morfís“. Eins og gefur að skilja fóru Þórlaug og blaðamaðurinn fljótlega að ræða saman um hlutfall drengja og stúlkna í ræðukeppni og skýringar á því. Þórlaug taldi meðal annars að stelpur hafi of lítið sjálfstraust og drengir of mikið og bætti við: „Til að taka þátt í ræðumennsku þarf ræðumaðurinn að hafa kjark, traust á sínum málstað og hversu sannfærandi sem rök andstæðingsins eru þá verður hann að halda fast við sitt, annars tapar hann trúverðugleika. Ég held að stelpum finnist þetta erfiðara en strákum.“
Einkennilegt að áhugamaður um stjórnmál, eins og Þórlaug Ágústsdóttir  mun vera, hafi algerlega misst af síðustu borgarstjórnarkosningum…