Hugtakið tæknikrati gengur nú í endurnýjun lífdaganna. En það er notað um menn sem telja verklag skipta meira máli en árangur og að mannlífið sé bara reikniþraut sem leysa megi með snoturri ríkisstofnun. Til dæmis voru Alþýðuflokksmenn á móti frumvarpi Ragnhildar Helgadóttur þáverandi menntamálaráðherra um afnám einkaréttar Ríkisútvarpsins á útvörpun. Báru þeir við ýmsum tæknilegum ástæðum, vildu hafa svona úthlutunanefnd útvarpsleyfa en ekki hinsegin og svona eftirllit en ekki á hinn veginn. Nú eru kratar á móti einkavæðingu bankanna. Ekki af því að þeir eru andvígir einkavæðingu (það þora þeir ekki lengur) heldur af því að Sverrir og Sighvatur telja sænsku Wallenberg peningana hættulega.
Elías Snæland Jónsson fyllir flokk tæknikrata ef marka má leiðara hans í Degi í gær. Það gerir hann athugasemd við að selja eigi mikinn hluta af gróðavænlegustu eignum samfélagsins. Hér hlýtur Elías að eiga við Landsbankann sem fékk 4 milljarða í ríkisaðstoð fyrir nokkrum árum!
Það skiptir svo auðvitað litlu máli hvort ríkisfyrirtæki skila tapi eða hagnaði þegar kemur til álita að selja þau. Aðalatriðið er að ríkið hætti að takmarka athafnafrelsi fólks með því að reka fyrirtæki.