Miðvikudagur 5. ágúst 1998

217. tbl. 2. árg.

Um daginn óku erlendir ferðamenn út fyrir veg og festu bíl sinn í drullupytti við hver. Fréttamaður sjónvarps sagði frá þessu með miklum hneykslunartón. Og bætti því svo við að í bíl útlendinganna væri allt til ferðarinnar, matur og eldsneyti! Í gær kom svo umhverfisráðherrann okkar í sjónvarpið og setti ofaní við sýslumann fyrir að hafa tekið heldur mildilega á ferðalöngunum.  Var greinlegt að ráðherrann vildi koma þeim skilaboðum á framfæri að hann væri baráttumaður fyrir bættri umgengni við náttúruna en ýmis furðusamtök hafa gagnrýnt ráðherrann fyrir að vera hallur undir önnur sjónarmið. Hvað er þá betra en að skammast út í útlendinga? Með því bætir hann ímyndina og ekki verða útlendingarnir til trafala í næstu kosningum enda hvorki með atkvæðisrétt né í skipulögðum þrýstihópi.

Það að útlendingar komi með mat og aðrar nauðsynjar með sér til landsins kemur kannski �?mari Ragnarssyni á óvart en vart nokkrum öðrum. Verðlag á mat hérlendis er fráleitt. Og það er einmitt vegna þess að bannað er að flytja mat hingað frá útlöndum. Verðlag á eldsneyti er svo sérstakur sorgarkafli í íslenskri skattheimtusögu. Það hlýtur að vera gleðiefni ef einhverjum tekst að skoða landið án þess að fá fjárhagslegan skell vegna matarkaupa.