Það er ef til vill til marks um hve stjórnmálamenn ráða miklu á fjármálamarkaðnum í dag að þegar Dagur spurði fjóra einstaklinga þeirrar spurningar í fyrradag „Hvaða banka á að sameina?“ voru þrír þeirra þingmenn. Pétur Blöndal var einn þeirra og svaraði spurningunni þannig: „Það er langbest að markaðurinn sjái um þetta. Það á að selja þessa banka og síðan geta þeir sameinast og gert það sem þeim dettur í hug. Ég tel að hluthafarnir og þeir sem eigi bankana eftir söluna séu miklu betur til þess fallnir að ákveða hverjir eigi að sameinast hverjum, heldur en einhverjir stjórnmálamenn sem þekkja ekki reksturinn.“
Í fréttum var í gær greint frá því að flestar skattstofur hefðu tekið saman sérstakan „hákarlalista“ yfir hæstu útsvarsgreiðendur samkvæmt álagningarskrá. Það er umdeilt svo ekki sé meira sagt hvort hið opinbera á yfirleitt að birta nokkrar upplýsingar um svo persónulega hagi manna sem tekjur þeirra eru. En að starfsmenn skattstofa skuli vera á launum við að flokka skattgreiðendur með þessum hætti er fyrir neðan allar hellur. Ef álagningarskrár liggja frammi fyrir forvitnum á annað borð mega þeir hnýsnu og þeir fjölmiðlar sem leggjast svo lágt að birta upplýsingar upp úr skránum svo sannarlega hafa fyrir því sjálfir að draga menn í dilka.